01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2974)

306. mál, stofnun sendiráðs í Japan

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir greið svör við þessari fsp. minni um stofnun sendiráðs í Japan sem sinnti fyrst og fremst viðskiptahagsmunum Íslendinga.

Það var ánægjulegt að heyra þá yfirlýsingu ráðherra að við fjölgun sendiráða og fjölgun starfsmanna í utanríkisþjónustunni yrði á næstunni fyrst og fremst tekið mið af viðskiptahagsmunum. Ég hygg að þar höfum við orðið langt á eftir í samkeppninni við aðrar þjóðir. Sölumennska er Íslendingum greinilega ekki í blóð borin né nútíma markaðsfærsla. Það er orðið fyllilega tímabært að á því verði breyting. Við stöndum Norðurlandaþjóðunum m.a. langt að baki. Þess vegna er ánægjulegt að heyra að það er lögð áhersla á þessi atriði nú þegar rætt er af hálfu utanrrh. um fjölgun sendiráða og stækkun utanríkisþjónustunnar.

Það er ekki nokkur vafi á því að þær 10-20 millj. kr. sem það kostar að halda úti sendiráði í Japan eða Kína muni borga sig margfalt aftur ef það sendiráð sinnir í meginmæli þeim verkefnum sem ég nefndi. Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa fyrir löngu framkvæmt það sem hér er til umræðu í dag og haft af því mjög góða raun og góðan ábata. Þó að ólaunaðir kjörræðismenn, vinir Íslands vítt um heim, vinni oft og tíðum ágæt störf koma þeir aldrei í staðinn fyrir sendiráð og starfsemi sendiráðsmanna sem eru atvinnumenn í sínu fagi. Þess vegna er fyllilega orðið tímbært að í þeim stóra heimshluta sem Asía er og raunar Afríka líka, sem einnig hefði mátt gera að umtalsefni í þessu sambandi, verði staðsettir íslenskir fulltrúar vegna vaxandi viðskipta við þessar þjóðir á næstu árum.