01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er einungis örstutt athugasemd.

Menn segja hér öðrum þræði: Það er búið að leiðrétta það sem aflaga hefur farið - eða: Það er hinum að kenna. Mér þykir það ekki vera kjarni málsins í þessu. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að ákveðinn hópur ungs fólks sérstaklega, sem leitaðist við að afla sér húsnæðis á síðustu árum, hefur orðið mjög illa úti. Ég ætla að vekja athygli á því í því samhengi að það hefur verið gert samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og við ríkisstj. um hvernig framtíðin eigi að líta út.

Menn segja: Framtíðin á að líta þannig út að menn fá lán til langs tíma fyrir stórum hluta af íbúðarhúsnæðinu. Framtíðin lítur líka þannig út að það er útlit fyrir betri afkomu í þjóðarbúinu sem betur fer en hefur verið að undanförnu. Fortíðin, hin fjærri fortíð, lítur hins vegar þannig út að menn eignuðust húsnæði með hjálp verðbólgunnar. Hér er skilinn eftir einn lítill hópur, sá sem var að reyna að eignast húsnæði á árunum 19801985. Hann er gerður gjaldþrota meira og minna. Þetta misræmi er kjarni málsins. Þetta misræmi, herra forseti, er það sem ég tel að menn eigi að taka á. Það gerist ekki með lánalengingum. Það kemur hvergi fram í þeim aðgerðum sem hafa verið boðaðar. Það hefur verið tekið af þessu fólki miðað við aðra þjóðfélagshópa. Ráðið getur ekki verið neitt annað en að skila aftur til þessa hóps með styrk eða hvað sem það heitir til þess að jafna metin við aðra hópa þjóðfélagsins.