01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3352 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er alveg ljóst að með ákvörðun ríkisstj. í maí 1983 var um að ræða gífurlegt högg fyrir launafólk í þessu landi sem hafði verið að koma sér upp húsnæði. Og í tölum hæstv. fjmrh. áðan fór hann vísvitandi með rangt mál vegna þess að hann miðaði við júnímánuð 1983 en ekki maímánuð 1983 þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og þeirra félaga tók við. Það er auðvitað hraklegt þegar hæstv. fjmrh. reynir að falsa tölur sér í vil í alvarlegum umræðum af þessu tagi.

Ég tel að ákvörðun ríkisstj. um að höggva á launavísitöluna 1983 en láta lánskjaravísitöluna vaða áfram hafi verið hreint siðleysi og það sé í rauninni ekkert annað boðlegt í þeim efnum en að Alþingi og ríkisstj. taki í þessum efnum ákvörðun um að endurgreiða eitthvað af þeim pinklum sem menn urðu að taka á sig eftir breytingarnar á árinu 1983.

Ég vil einnig minna á það í þessu sambandi, herra forseti, að á árinu 1982 var lagt fram stjfrv. sem gerði ráð fyrir að húsnæðislán breyttust í samræmi við launaþróun, þau breyttust ekki eftir lánskjaravísitölu heldur í samræmi við launavísitölu. Það sjá allir hve gífurlegan mun þessi ákvörðun hefði haft í för með sér fyrir húsbyggjendur og skuldara í þessu landi. Þetta frv. fór í gegnum þrjár umræður í Ed., en var stöðvað af íhaldinu í Nd. á fyrstu mánuðum ársins 1983.