01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (2982)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Örstutt skal athugasemdin vera, en mér blöskra svo útúrsnúningar hæstv. fjmrh. þjóðarinnar í þessu máli og svör hans að ég kemst ekki hjá því að fara upp og nota mér þá heimild þingskapanna að gera við það örstutta athugasemd. Mér finnast hreinlega vera á ferðinni slík fyrirlitning, slík lítilsvirðing á vanda þess fólks sem er sannanlega fyrir hendi, sem er raunverulegur, það liggur fyrir, og hann er að stórum hluta til að kenna efnahagsvanda þessarar ríkisstj. Það er einnig sannanlegt. Það er verið að kenna fyrrv. ríkisstj. um allt sem aflaga hefur farið í landinu, en allt sé gott sem gerði hann, eins og hæstv. fjmrh. hefur eitt fram að færa. Einu svör hæstv. ráðh. eru ætíð þau sömu. Það er allt illt fyrri ríkisstj. að kenna. Við erum engilhreinir og saklausir. Allt er gott sem gerðum við. (Fjmrh.: Tölurnar sýna það.) Þetta er lítilsvirðing, hæstv. fjmrh. Þú ættir að hafa eitthvað annað fram að færa en hreina útúrsnúninga eins og skólastrákur og hegða þér svolítið líkara hæstv. ráðherra eins og þeir ættu að gera á Alþingi þjóðarinnar. Það er mannfyrirlitning, herra forseti, að fjalla á þennan hátt um vandamál þessa fólks eins og hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstj. leyfa sér aftur og aftur að gera, eins og skólastrákar að reyna að koma skömmunum á aðra.