01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

309. mál, vandi vegna misgengis launa og lánskjara

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar að í svörum mínum hefði komið fram fyrirlitning á vanda þess fólks sem staðið hefði í húsbyggingum og hefði orðið að þola það misgengi á milli lánskjara og launa sem varð til í tíð fyrri ríkisstj. Því fer auðvitað víðs fjarri. Þessari ríkisstj. hefur verið fullljóst hver þessi vandi hefur varið og í hvern vanda fyrri ríkisstj. setti húsbyggjendur að þessu leyti, bæði með efnahagsstefnu sinni og lækkun á framlögum til húsnæðismála. Þess vegna hafa verið gerðar mjög umtalsverðar ráðstafanir til að auka framlag ríkissjóðs til húsnæðismálastjórnarinnar, til að koma á greiðslujöfnun með afturvirkum hætti að því er varðar húsnæðismálastjórnarlánin og með fyrirheiti frá lífeyrissjóðum innan Alþýðusambandsins um að gera slíkt hið sama og með skuldbreytingum. Okkur er ljóst að sá vandi sem leiddur var yfir húsbyggjendur var býsna mikill og að hann er hvergi nærri leystur, það eru margir enn að glíma við þann vanda, en á móti því verður ekki mælt að það hafa verið gerðar mjög umtalsverðar ráðstafanir til að koma til móts við þessa aðila vegna þess að okkur hefur verið fyllilega ljóst hvert stefndi og hverjar voru hinar félagslegu afleiðingar af efnahags- og félagsmálastefnu fyrri ríkisstj.