01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2989)

334. mál, fæðingarorlof

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Á þskj. 617 hef ég leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til heilbr.- og trmrh.:

„Hvað líður endurskoðun á lögum um fæðingarorlof samkvæmt stjórnarsáttmála?"

Nú er skammt í að liðin séu þrjú ár síðan núverandi stjórn tók við stjórnartaumunum í landinu. Eitt af þeim málum sem stjórnarflokkarnir komu sér saman um að endurskoða voru lögin um fæðingarorlof. Þau lög gera ekki ráð fyrir að fæðingarorlof fái að fullu aðrar konur en þær sem vinna utan heimilis. Það sem við viljum víst flest vinna að er að jafna og bæta lífskjörin í landinu hvort sem um er að ræða konur eða karla. Það er því þörf á að fara að sjá eða heyra eitthvað um samræmingu á fæðingarorlofi til allra kvenna, hvort sem þær vinna utan heimilis eða við heimilisstörf.

Það er alkunna að fjölskyldan er hornsteinn í okkar þjóðfélagi og vinna við barnauppeldi og heimilisstörf er ekki síður mikilvæg en störf þau sem innt eru af hendi utan heimilis. Flestir munu nú viðurkenna að heimilisstörf séu mjög mikilvæg þó að þau hafi ekki verið metin að verðleikum að sama skapi. Þetta verður að breytast og við megum ekki láta okkar eftir liggja til að svo geti orðið sem allra fyrst. Þess vegna óska ég eftir svari hæstv. heilbr.- og trmrh. um hvað líði endurskoðun þessa þáttar í almannatryggingalögunum.