01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2990)

334. mál, fæðingarorlof

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Spurt er hvað líði endurskoðun þeirra ákvæða almannatryggingalaga sem snerta fæðingarorlof.

Svo stendur á að þeir aðilar sem endurskoðað hafa einhverja þætti almannatryggingalaganna hafa ekki tekið þetta mál sérstaklega til umfjöllunar. Hins vegar stendur það fyrir dyrum og ætlunin er að nota sumarið sem fram undan er til að gera heildarendurskoðun á þessum þætti. Ég hef ákveðið að það verði sérstök nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar. Með allri virðingu fyrir öðrum sem fjalla um endurskoðun almannatryggingalaga held ég að þetta mál sé svo sérstætt innan tryggingakerfisins að það þurfi alveg ákveðna úrlausn vegna þeirra sjónarmiða sem fram hafa komið. Aðilar vinnumarkaðar þurfa að eiga þar nokkurn hlut að máli. Það er auðvitað öllum orðið ljóst núna að fæðingarorlof í þeim skilningi að það séu greiðslur sem gera konum sem vinna utan heimilis kleift að vera heima og annast þar börn sín hlýtur að byggjast á annarri forsendu en fæðingarorlof eða fæðingarstyrkur til þeirrar konu sem þarf ekki að breyta um vinnustað sinn þó að hún eignist barn og þurfi að sinna barni sínu einmitt fyrstu vikurnar meira en á öðrum æviskeiðum.

M.ö.o.: Ég tel að þessi umræða hafi oft og einatt orðið töluvert ruglingsleg vegna þess að menn hafa sett undir einn hatt fæðingarorlof annars vegar og fæðingarstyrk hins vegar. Það er þó formsatriði og deila um orð má ekki verða til þess að vilji Alþingis fái ekki framgang. Hins vegar gerir þessi staðreynd málið flóknara og því tel ég að það sé þörf á alveg sérstakri endurskoðun á þessum atriðum. Þessa dagana er verið að ganga frá nefndarskipun í þessu skyni og þá verða að sjálfsögðu tekin til umfjöllunar ýmis þau þingmál sem þetta mál hafa snert á stjórnartímabilinu, svo og önnur atriði sem reynslan hefur leitt í ljós að nauðsynlegt sé að taka til athugunar.