01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2997)

351. mál, geðheilbrigðismál

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt nú að undrast sérstaklega viðbrögð hv. 10. landsk. þm. sem undraðist svo mjög að nefnd væri gert að ljúka störfum sínum, nefnd sem setið hefur í fimm ár. Það eru margar nefndir sem komast af með minna. Ég dreg ekkert úr því að það er mjög flókið og viðamikið mál sem við erum að ræða um og menn eru í öðrum störfum eins og oft er, en ekki þarf að undrast að nefndinni sé gert að skila af sér eftir að margsinnis hefur verið kveðið á um verklok, í upphafi fyrst af sjálfu Alþingi og það síðan framlengt aftur og aftur af ráðuneyti án þess að sá frestur væri undir Alþingi borinn, en látið gott heita.

Sérstaklega hlýt ég að undrast að hv. þm. telur þetta alveg óviðurkvæmilegt og segir að nefndin fái ekki að ljúka störfum sínum í friði. Ég skil málin svo að nefndin hafi lokið störfum sínum, líka þeim þætti sem fjallar um geðheilbrigðismál aldraðra. Eftir því sem nefndarmenn tjá mér hefur sá þáttur verið til umsagnar hjá aðilum og það má auðvitað hugsa sér að ráðuneytið leiti slíkra umsagna. Spurning er hvort nefnd á að gera það eða ráðuneyti. Ég held að venjulega sé það nú ráðuneyti.

En hvað um það. Þessi þáttur er tilbúinn og hefur verið til umsagnar svo að ég fæ ekki betur séð en starfinu sé lokið. Ég hlýt því að undrast þessi einkennilegu viðbrögð hv. þm. og tel að þau byggist á misskilningi. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að stöðva nefnd í miðju kafi heldur er verið að ganga formlega frá því að hlutirnir liggi fyrir þegar þeir hafa verið unnir eins og er einmitt um þessa nefnd.