01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2998)

351. mál, geðheilbrigðismál

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég missti því miður af fyrri hluta þessarar umræðu vegna þess að ég þurfti að bregða mér frá. En ég bar fram fsp. fyrr á þinginu til hæstv. heilbrmrh. um það hvað liði störfum undirnefndar þessarar stóru geðheilbrigðisnefndar sem fjallaði sérstaklega um geðheilbrigðismál barna og unglinga. Þá átti sú nefnd rétt ólokið að skila niðurstöðum sínum og því gat ráðherra ekki á þeim tíma svarað mér um hvert efni þeirra niðurstaðna væri eða hvernig yrði farið með þær ráðleggingar og niðurstöður sem lágu fyrir. Ég ítreka því þessa fsp. hér nú til að fá upplýsingar um hver er ætlunin með þær niðurstöður.