01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (3004)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Það er augljóst mál að alger óþarfi er að beina því til forseta að hann þurfi að hafa námskeið með ráðherrum eða öðrum þm. til að kenna þeim þingsköp. Það skal á það bent, sem öllum á að vera ljóst, að það hefur tekist að ég ætla fádæma vel að fylgja hinum nýju þingsköpum sem sett hafa verið og hafa komið til framkvæmda á þessu þingi. Og það er þingheimi öllum að þakka. Það byggist á því að þingheimur þekkir þingsköpin og vill hlíta þingsköpunum.

Það var misskilningur, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan, að ráðherrar gætu tekið til máls og talað þegar þeim þóknaðist í fyrirspurnatíma. Það gilda nákvæmlega sömu reglur um ráðherra og aðra þm. Þeim er heimilt að tala tvisvar svo sem öðrum þm. Munurinn er aðeins sá, eins og við vitum, að þm. hefur tvær mínútur til umráða í hvort sinn en ráðherra fimm mínútur.

Það verður að ætla að það þurfi ekki að vera nein vandkvæði á því að framkvæma þingsköpin hér eftir sem hingað til eins og gert hefur verið á þessu þingi. Auðvitað geta komið fyrir þau tilvik að þm. og ráðherrar telji sig nauðsynlega þurfa að gera athugasemdir þegar viðkomandi hefur talað tvisvar. Það hefur verið leyft. En til þess að það fari vel á framkvæmd þingskapaákvæða um fsp. er mjög áríðandi að þegar þm. og ráðherrar fá leyfi til að gera örstutta athugasemd sé það leyfi ekki notað til að upphefja umræður um nýjan þátt málsins, sem væri efni í almennar umræður, heldur haldi menn sig við anda þingskapanna, að hin stutta athugasemd sé einungis gerð í því skyni að leiðrétta, gefa upplýsingar, bera af sér sakir. Ef allir, sem oftast er, fylgja þessu munu engin vandkvæði hljótast af framkvæmd ákvæða þingskapa um fsp.