01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (3005)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg rétt að hin nýju þingsköp séu um margt ágæt varðandi fsp. Þau setja þm. þau skilyrði að forma spurningar sínar skýrt og afdráttarlaust. Við það hafa þm. almennt staðið. Það sem illa hefur farið varðandi hin nýju þingsköp er það, að þau krefjast þess að ráðherrar komi líka með skýr og afdráttarlaus svör. Vandi þessa forms hefur verið sá að hæstv. ráðherrar hafa ekki svarað, heldur staðið hér með málalengingar sem hafa þvingað fleiri en einn og stundum fleiri en tvo þm. til að koma fyrirspyrjanda til aðstoðar. Ég held þess vegna, herra forseti, að vandinn sé ekki sá að ráðherrar hafi ekki nógan tíma. Þeir undirbúa svör sín illa og hafa ekki gert sér ljóst að þetta nýja form krefst skýrari og afdráttarlausari svara.