01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3367 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

355. mál, iðgjöld bifreiðatrygginga

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. trmrh. fyrir svörin þó ég telji að þau hafi ekki verið fullnægjandi.

Í upphafi máls síns sagði hæstv. ráðh. að það væri misskilningur hjá mér að tryggingafélögin hefðu heimild til að ákvarða einhliða sín iðgjöld. Það kom ekki fram í mínu máli heldur var ég fyrst og fremst að gagnrýna það verðsamráð, sem tryggingafélögin hafa haft sín á milli um iðgjaldaákvarðanir frá því að iðgjaldaákvörðun var gefin frjáls á árinu 1983, og óskaði eftir að fá fram svör ráðherra við því hvort hún teldi það eðlilegt eða hvort breytinga væri þörf. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með svör ráðherra í því efni vegna þess að mér skilst á hennar svörum að hún leggi í raun blessun sína yfir það fyrirkomulag sem nú gildir í þessu máli og þar með yfir það verðsamráð sem tryggingafélögin hafa sín á milli. Ég verð að segja að það kemur nokkuð einkennilega fyrir sjónir að sjálfstæðismenn, sem eru talsmenn frjálsrar verðmyndunar, telji t.d. í þessu efni að það sé eðlilegt að tryggingafélögin hafi slíkt verðsamráð sín á milli. Það er mín skoðun að þegar ljóst er að það hefur skeð á undanförnum árum með þeim afleiðingum að tryggingafélögin hafa getað knúið fram óeðlilega miklar hækkanir á sínum iðgjöldum beri ríkisvaldinu skylda til að láta endurskoða það fyrirkomulag sem gilt hefur.

Mér fannst hæstv, fyrrv. heilbr.- og trmrh. Matthías Bjarnason hafa miklu meiri skilning á þessu máli við umræður utan dagskrár um daginn en hæstv. núv. heilbr.- og trmrh. Ég man ekki betur en það hafi komið fram í hans máli að hann teldi nauðsynlegt í ljósi þess verðsamráðs sem tryggingafélögin hafa haft sín á milli að kanna hvort það væri ekki eðlilegt að fella þessar iðgjaldaákvarðanir undir lögin um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Þess vegna valda svör ráðherra mér vonbrigðum og ég tel ástæðu til þess, fyrst ekki er að vænta þess að trmrh. hreyfi sig neitt í því máli að beita sér fyrir breytingu á því fyrirkomulagi sem gilt hefur, að þm. athugi það og ég mun kanna sérstaklega hvort ekki er ástæða til að breyta fyrirkomulaginu og fella þessar ákvarðanir undir verðlagslöggjöfina.

Að lokum, herra forseti, gat ég ekki heyrt að hæstv. ráðh. svaraði 4. lið fsp. minnar, um það hvort þessi nýlega iðgjaldahækkun hafi verið rædd í ríkisstj. Óska ég eftir því að ráðherrann svari því.