01.04.1986
Sameinað þing: 66. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

363. mál, innri öryggismál

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir svörin og fagna því að hann svaraði því afdráttarlaust að ekki stæði til að setja á fót slíka leyniþjónustu eða öryggislögreglu að erlendri fyrirmynd sem ég spurði hann um.

En varðandi það að ég hafi misskilið allt sem hér er um spurt og varðandi það að utanrrh. hafi engar slíkar hugmyndir reifað á fundi hjá Varðbergi 20. febr. s.l., þá vil ég vitna til fjölmiðils hér í landinu, Morgunblaðsins, en það segir á einum stað fyrir nokkrum dögum síðan, með leyfi forseta:

„Á ríkisstjórnarfundi í gær var lögð fram tillaga að ríkisstjórnarsamþykkt varðandi innra öryggi þjóðarinnar. Það var Matthías Á. Mathiesen utanrrh. sem hreyfði málinu, en svo sem kunnugt er gerði hann þetta mál fyrst að umtalsefni á fundi Varðbergs, félags áhugamanna um vestræna samvinnu, hinn 20. febr, s.l.“ Og síðan segir: „Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Matthías Á. Mathiesen utanrrh. að með innra öryggi væri bæði átt víð viðbúnað gegn hryðjuverkum öfgamanna, svo og ólöglega upplýsingastarfsemi. Ekki yrði horft fram hjá því að við lifum á tímum alþjóðlegra hryðjuverka þar sem allar þjóðir geti fyrirvaralaust orðið vettvangur ofbeldismanna. Þá hafi komið upp mál í nágrannalöndum okkar, t.d. Noregi, þar sem orðið hafi uppvíst um stórfellda njósnastarfsemi er grafi undan öryggi viðkomandi ríkja: „Við Íslendingar getum ekki“, segir ráðherrann, „horft fram hjá þessum staðreyndum. Það verður að gera fyrirbyggjandi ráðstafanir og einnig áætlanir um viðbúnað ef slíkan vanda bæri að höndum okkar“, sagði utanrrh."

Ég vil meina, herra forseti, að í framhaldi af slíkri umfjöllun í virtum fjölmiðli, þá sé fullkomlega eðlilegt að hæstv. utanrrh. sé spurður um það hér á Alþingi hvað sé hér á ferðinni og það þurfi enga útúrsnúninga að hafa við það. Þar af leiðandi sé þessi fsp. fullkomlega þingleg, enda hefði hæstv. forseti væntanlega ekki leyft henni hér fram að koma nema svo væri, hæstv. utanrrh. Varðandi svo það, sem ég spurði um í þriðja lagi, að starfsmenn ráðuneyta væru ekki raupandi um slík mál á fundum úti í bæ, þá held ég mig fast við þá afstöðu mína að það sé með öllu óeðlilegt að starfsmenn úr ráðuneytum, sem þessir málaflokkar heyra undir, séu fleiprandi um slík mál hjá einhverjum klúbbum úti í bæ. Þeir geta ósköp einfaldlega ekki, hæstv. utanrrh., skipt um hlutverk eins og dr. JekylI og mr. Hyde gerðu forðum og verið allt aðrir menn á kvöldin heldur en þeir eru í vinnu hjá þér, hæstv. utanrrh., á daginn. Það gengur einfaldlega ekki þannig fyrir sig. Starfsmenn í utanrrn. eru starfsmenn í utanrrn. og vigt þeirra orða er þar af leiðandi meiri en óbreyttra manna þegar fjallað er um slík mál.

Ég geri því kröfu til þess, herra forseti, að þeim skilaboðum verði komið til þessara starfsmanna, hæstv. utanrrh., að þeir láti af því að ræða um þessi viðkvæmu mál á opinberum vettvangi þar sem staddir eru fjölmiðlamenn og staddir eru fulltrúar erlendra sendiráða t.a.m. áður en hæstv. Alþingi eða utanrmn. þess hefur verið kynnt vandlega hvað hér er á ferðinni.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu. En ég vil leggja á það enn og aftur áherslu að hér er ekki gamanmál á ferðinni. Hér eru alvörumál á ferðinni. Það er gott og blessað að einhverjir klúbbfélagar úti í bæ hafi áhuga á þessum málum. Ekki er ég að fara fram á að þeim sé meinað það. En umfjöllun opinberra aðila, hvort sem það er hæstv. ráðherra eða starfsmenn hans eða aðrir starfsmenn ráðuneyta, eru ekki gamanmál og ekki flysjungsmál og það ber að fara með þessi mál eins og eðli þeirra krefst með fullkominni yfirvegun og ekki hlaupa með þau í fjölmiðla eða láta starfsmenn erlendra sendiráða vera vitni að því að verið sé að reifa þau á frumstigi. Það er með öllu óeðlilegt og ég tel í raun framkomu þeirra, sem þannig hafa staðið að málum, vítaverða, herra forseti.