01.04.1986
Sameinað þing: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3380 í B-deild Alþingistíðinda. (3025)

361. mál, gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Á þskj. 652 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. ásamt hv. þm. Guðmundi Bjarnasyni, Páli Péturssyni, Stefáni Valgeirssyni, Stefáni Guðmundssyni, Jóni Kristjánssyni og Þórarni Sigurjónssyni um breytt gjaldskrársvæði Póst- og símamálastofnunar. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að gjaldskrársvæði símans verði stækkuð þannig að í meginatriðum gildi sami gjaldflokkur innan sérhvers athafna- og viðskipta- eða greinistöðvarsvæðis.“

Eins og fram kemur í grg. með þessari till. hefur hún verið flutt áður þannig að efni hennar er kunnugt hv. þm., en ástæðan fyrir flutningi till. er fyrst og fremst sú að hv. þm. þykir hægt miða í því að stækka gjaldskrársvæðin. Þó hafa verið stigin skref í þá átt síðan þessi till. var fyrst flutt, en of fá og of smá. Þau skref hafa reyndar verið stigin í anda till.

Það er augljóst réttlætismál að sami gjaldflokkur gildi að lágmarki samkvæmt því sem gert er ráð fyrir í tillgr. Sameining gjaldsvæðanna mun að sjálfsögðu hafa í för með sér að auka þarf línufjölda til endastöðvanna. Það liggur raunar ekki fyrir hversu mikil sú aukning þarf að vera. Í flestum tilvikum mun ekki vera um tæknileg vandamál að ræða en einhver kostnaður hlytist af. Helsta vandamálið í þessu efni eru litlu stöðvarnar, 60 og 90 númera, en hámarkslínufjöldi til þeirra er sex línur sem í sumum tilvikum er of lítið nú þegar og mundi versna við aukna notkun.

Símnotendur á svæðum litlu stöðvanna búa við mesta óréttlætið vegna fæðar símnotenda í sama gjaldflokki. Á nokkrum svæðum hafa reyndar verið gerðar ráðstafanir til að skipta þessum stöðvum út eða tengja ákveðna síma fram hjá þeim. Það er ekkert aðalatriði að gjaldskrársvæðin verði nákvæmlega eins og upptalningin með till. sýnir, en minni mega þau ekki vera, a.m.k. ekki að mínum dómi.

Í 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála segir, með leyfi forseta:

„Stefnt verði að því við gjaldskrárgerð að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers og skal ákveðið í reglugerð hvenær framkvæmd þessa ákvæðis kemst á.“

Umrædd lög voru samþykkt 1977. Enn þá hefur ekki verið ákveðið í reglugerð hvenær þessi ákvæði skuli framkvæma.

Aðgerðir í anda þessarar till. eru alls ekki af því tagi að tekin sé lykkja á leiðina að því marki að sömu gjöld gildi innan hvers svæðisnúmers, síður en svo. Till. felur þvert á móti í sér að stigið verði raunhæft áfangaskref, aðgerðum verði hraðað.

Það væri ekki úr vegi að minna á í leiðinni að samkvæmt áður tilvitnuðum lögum er ráðherra heimilt að ákveða að sama gjald skuli krafið fyrir símtal við helstu stjórnsýslustofnanir í Reykjavík, hvaðan sem talað er af landinu. Þessu ákvæði hefur ekki verið fylgt í framkvæmd, en er vonandi í undirbúningi, enda væri slík ráðstöfun mikil hagsbót fyrir símnotendur, ekki síst úti á landsbyggðinni. Þetta sem ég síðast nefndi er raunar ekki hluti af till. sem hér er flutt, en ég vildi ekki láta hjá líða að fara um það nokkrum orðum.

Að mínu áliti væri mikill fengur í því ef Alþingi samþykkti þessa till. til þál. og lýsti þeim vilja sínum að stækkun gjaldskrársvæðanna yrði hraðað.

Herra forseti. Ég legg til að till. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.