01.04.1986
Sameinað þing: 67. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3384 í B-deild Alþingistíðinda. (3028)

377. mál, áhrif lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 677 flytjum við nokkrir þm., 1. flm., 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson, og sá er hér stendur, Karl Steinar Guðnason, Stefán Benediktsson og Páll Pétursson, till. um könnun á áhrifum lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar og vinnu. Hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna áhrif lögbundinna forréttinda, m.a. einkaréttar, til tiltekinna starfa eða atvinnurekstrar. Í könnun þessari skal einkum leitast við að varpa ljósi á þýðingu einkaréttar eða lögbundinna forréttinda á stöðu þeirra, er slíks réttar njóta, áhrif þessa á verðlag og hagsmuni neytenda yfirleitt, svo og á kostnað í rekstri, jafnt opinberum rekstri sem einkarekstri. Þá skal könnuninni einnig ættað að leiða í ljós áhrif lögbundinna takmarkana af þessu tagi á tækniþróun, hagvöxt og atvinnustig. Skýrsla um niðurstöðu könnunarinnar skal lögð fyrir Alþingi.“

Þessu fylgir nokkuð ítarleg grg. sem óþarft ætti að vera að lesa. Ég held að það sé álit allra flm. og reyndar ekkert bundið við þá að það sé mjög tilviljanakennt hverjir í þessu þjóðfélagi hafa komið fram ákvæðum um lögvernd sinna starfsgreina. Í mörgum tilfellum má rekja þá lögvernd, sem tilteknar stéttar hafa hlotið, til frekju og óbilgirni og sterkrar aðstöðu hjá viðkomandi ríkisstjórnum, hverjar sem þær eru hverju sinni.

Margt í þessum lögvernduðu ákvæðum er löngu úrelt. Annað er ekki í samræmi við atvinnuþróun. Það var ekki ætlunin hér að fara að telja upp einstakar starfsgreinar eða ráðast á þær þó að ástaða væri til þess. Ég held að þarna séu hlutir komnir í flækju, ósamræmi og það ætti alls ekki að spilla að reynt verði að móta þarna skýrari línur. Ég held að í býsna mörgum tilfellum, eins og segir í grg., séu þessi lögvernduðu réttindi mjög tvíeggjuð og hafi mjög tvíeggjað gildi og séu býsna oft bókstaflega hamlandi á atvinnuþróun og tækniþróun og séu, eins og ég sagði, býsna oft neikvæð. Í öðrum tilfellum má benda á hið gagnstæða.

Það segir hér í lok grg.: „Stöðugt fjölgar þeim starfshópum sem leita eftir einkarétti til að vinna tiltekin störf eða forréttindum á tilteknum sviðum atvinnulífsins. Því er brýnt að fá svör við ofangreindum álitaefnum hið allra fyrsta og því er þessi till. til þál. flutt.“

Ég legg til, herra forseti, að þessari till. verði vísað til allshn.

Umr. (atkvgr.) frestað.