02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (3033)

202. mál, verðbréfamiðlun

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Formaður fjh.- og viðskn., hv. 4. þm. Norðurl. v., hefur gert grein fyrir þeim brtt. sem nefndin flytur við þetta frv. Um þetta mál var í upphafi nokkur ágreiningur innan nefndarinnar og sýndist mönnum sitt hvað, en ég hygg að það hafi verið vel að þessu unnið innan nefndarinnar undir forustu formanns hennar og það var tekið fullt tillit til þeirra sjónarmiða og ýmissa efasemda sem fram komu, m.a. frá þeim sem þetta mælir, og komið verulega til móts við ýmis þau sjónarmið sem fram hafa komið og þær efasemdir sem menn hafa haft um að þarna væri nægilega tryggilega um hnútana búið. En þegar öllu er á botninn hvolft hlýtur að þurfa að meta hvort betra sé að samþykkja þetta frv. eins og það er nú úr garði gert en að láta vera nær reglulaust, fyrir utan hinar almennu lagareglur, um þetta viðskiptasvið þar sem umsvifin hafa farið svo mjög vaxandi að undanförnu. Þegar þeir kostir eru metnir er augljóst í mínum huga að betra er að samþykkja þetta frv. Það horfir til aukins réttaröryggis fyrir almenning og aukins aðhalds að þeim aðilum sem þessi viðskipti nú stunda. Það er auðvitað hvort tveggja til bóta. Hins vegar er hér um svið að ræða sem lítið hefur verið fjallað um í löggjöf og því líklegt, eins og fram kom raunar í máli frsm., hv. 4. þm. Norðurl. v., að líklegt er að breyta þurfi þessum lögum í ljósi reynslunnar.

Ég hafði í upphafi, svo sem áður sagði, nokkrar efasemdir um ágæti þessa máls og sá á því ýmsa vankanta. Komið hefur verið til móts við þau sjónarmið og því styð ég þetta mál eins og fram kemur raunar í nál.