02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umræðu er gömul lumma frá s.l. hausti sem búin er að brasa á pönnunni hjá okkur í fjh.- og viðskn. í allan vetur en er nú loks að koma til endanlegrar afgreiðslu.

Það má áreiðanlega til sanns vegar færa að lumman sé dálítið farin að brenna við því að ýmislegt það sem hefur gerst í sambandi við frágang frv. á seinasta stigi hefur verið í hæpnara lagi, eins og hv. seinasti ræðumaður rakti áðan varðandi vikurflutning á Suðurlandi.

Meginatriði þessa máls er að verið er að stórauka þungaskatt, verið að hækka hann mjög verulega jafnhliða því sem skattur á bensíni var hækkaður á s.l. hausti með brbl. eins og kunnugt er, en á sama tíma er hins vegar verið að lækka framlög til vegamála mjög verulega þannig að ríkissjóður er bersýnilega að taka til sín í auknum mæli þá tekjupósta sem ætlaðir hafa verið til vegagerðar.

Eins og fram hefur komið felur þessi þungaskatts- og bensínhækkun í sér mjög verulega aukna skattheimtu á umferðina, en á hinn bóginn lækkar framlag til vegagerðar á þessu ári um 140 millj. frá því sem var á seinasta ári, hvort tveggja miðað við verðlag ársins 1986. Þetta kom fram í svari samgrh. við fsp. Þórðar Skúlasonar sem borin var fram fyrr í vetur um fjárframlög til vegagerðar, en samgrh. hefur nýlega sent skriflegt svar til þm. við þessari fsp. og þetta svar er að finna á þskj. 512.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessu svari vegna þess að ég hygg að fjölmiðlar hafi ekki gert mikla grein fyrir efni þess, en þar kemur greinilega fram, í svari samgrh., að um er að ræða verulega lækkun á framlögum til vegagerðar á þessu ári. Í tíð þessarar stjórnar hefur framlag til vegagerðar lækkað jafnt og þétt. Það var um 2% 1983-1984 sem var verulega miklu lægra en var á árunum þar á undan. Þó að ég viðurkenni að fsp. náði ekki til þeirra ára vil ég fullyrða að prósentuhlutföllin voru töluvert hærri þá. Síðan sígur þessi prósentutala niður í 1,8 á árinu 1985 og samgrh. spáir því að á árinu 1986 verði þessi prósentutala 1,64, sú lægsta sem verið hefur um langt árabil.

Ef litið er á langtímaáætlun í vegamálum var áætlað að framlög til vegagerðar á árinu 1986 yrðu 2750 millj. kr. á þessu ári. En skv. vegáætlun verða framlögin 2040 millj., þ.e. 710 millj. kr. lægri en áætlað var skv. langtímaáætlun. Í langtímaáætlun var gert ráð fyrir því að við værum komnir með framlög til vegamála sem næmu 2,4% af þjóðarframleiðslu á þessu ári, en þau áform hafa orðið að engu í tíð þessarar stjórnar og hlutfallið hefur verið að síga jafnt og þétt niður á við, var sem sagt komið niður í 2% á fyrstu árum þessarar stjórnar, en var 1,8 í fyrra og er nú að síga niður fyrir 1,7, þ.e. niður í 1,64%.

Sú regla hefur stundum verið höfð til viðmiðunar í sambandi við framlög ríkisins af skattlagningu umferðar til vegamála að a.m.k. 50% af heildarsköttum á bensín auk þungaskatts gengju til vegamála og þar fyrir utan legði svo ríkið fram allnokkra upphæð til viðbótar af fjárlögum. Þetta hefur staðist um langt árabil og alltaf hefur ríkið lagt eitthvað til viðbótar af mörkum miðað við þessa 50% reglu. Þannig lagði ríkið fram liðlega 200 millj. á árunum 1983 og 1984, fyrra árið 208 millj. og seinna árið 237 millj., en í fyrra seig þetta verulega niður, var komið niður í 182 millj., og í ár er þessi tala komin niður í mínus 128 millj. Í fyrsta skipti um langt árabil leggur ríkið minna en ekki neitt fram miðað við þessa 50% reglu. Það vantar 128 millj. upp á að þeim fjármunum sem aflað er af umferð sé skilað til vegagerðar.

Í ljósi þessara talna, sem ég hef rakið hér, er augljóst að það er ekki hægt að réttlæta það með nokkrum hætti að leggja stórhækkaðan þungaskatt á umferðina og því munum við Alþýðubandalagsmenn greiða atkvæði gegn þessu frv.

Í nál. meiri hl. er gerð grein fyrir því hvernig hlutfallið sé milli skattlagningar á umferð eftir því hvort menn nota olíu á dísilvélar eða bensín á bensínvélar. Þessi samanburður er mjög fróðlegur og ég hvet hv. þm. til að kynna sér hann. Samkvæmt þeim tölum sem þar eru birtar þarf að aka dísilbíl sem er lítillar gerðar, smábíl, yfir 20 þús. km á ári til þess að fastagjaldið af dísilkeyrslunni jafnist á við bensíngjaldið. Ég hygg að það sé frekar fátítt að menn aki bílum yfir 20 þús. km á ári. Ég er ekki að segja að það sé neitt einsdæmi því að ég t.d. geri það sjálfur á hverju ári. Ég keyri vafalaust töluvert meira en það. Svo er kannske um ýmsa aðra sem mikið þurfa að keyra, en þó hygg ég að allur þorri þeirra sem smábíla eiga aki verulega miklu minna en 20 km á ári. Heyrt hef ég nefnt að meðaltalið sé einhvers staðar milli 10 og 15 þús. km. Þessi staðreynd segir okkur þá að með skattlagningu sinni á dísilbifreiðar er ríkisvaldið eindregið að hvetja bifreiðaeigendur til að nota ekki dísilbíla, eindregið að hvetja þá til að spara ekki í eldsneytiskaupum því að eins og kunnugt er er dísilolían töluvert ódýrari en bensínið og það er þjóðhagslegur sparnaður fólginn í því að menn keyri frekar dísilvélar en bensínvélar. Vegna þess hvernig að þessari skattlagningu er staðið virðist vera um að ræða beina hvatningu af hálfu ríkisvaldsins til manna að aka frekar bensínbílum en dísilbílum. Það virðist vera harla öfugsnúið.

Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram vegna þess að ég álít að það sé enn einn ágallinn á þeirri skattlagningu sem hér gengur til atkvæða. - [Fundarhlé.]