02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3399 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég óska eftir því að hv. formaður fjh.- og viðskn. sé viðstaddur þessa umræðu þar sem ég vildi beina til hans nokkrum spurningum. (Forseti: Það verður séð til þess að hann mæti. Við dokum aðeins við.) Ég geri hlé á máli mínu þar til hann kemur í salinn.

Herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu þar sem formaður hv. nefndar er genginn í salinn. Mig langar til að varpa þeirri spurningu til formannsins: Hefur verið reiknað út hvað þær breytingar, sem er lagt til að gerðar verði á brbl., muni kosta ef svo má segja í tekjutapi fyrir ríkissjóð miðað við þær áætlanir sem voru gerðar þegar brbl. voru sett? Það er ekki mjög gott að gera sér grein fyrir, þegar maður les brtt. og um þann afslátt sem gefinn verður miðað við ekna kílómetra, hvað þetta kostar ríkissjóð eða hvernig þetta kemur til góða bifreiðaeigendum og þeim neytendum sem þurfa að greiða flutningskostnað. Eins og tölur hafa sýnt undanfarið er mjög mikill munur á verði á nauðsynjavörum eftir því hvar við erum á landinu. Það kemur svo sem engum á óvart þar sem flutningskostnaður vegur þungt og enn þá þyngra þegar hækkun verður á þungaskatti eins og hér er lagt til að verði um liðlega 50%. Mér finnst því mikilvægt að vita hvað þessar breytingar þýða.

Ég átti þess kost að sitja einn fund í hv. fjh.- og viðskn. þar sem BJ hefur áheyrnarfulltrúa í nefndinni. Þar kom fram, ef ég man rétt var þetta seinni partinn í janúar eða byrjun febrúar, að þá þegar hefði flutningskostnaður til Akureyrar hækkað um 5%. Hækkanir hafa því nú þegar gengið í gildi vegna hækkunar á þungaskatti og er mikilvægt að gleggri upplýsingar komi fram en þær sem hér liggja á borðinu til að hægt sé að átta sig á þessum hlutum.

Í nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. kemur fram að þær lækkanir sem lagt er til að verði vegna smærri bíla eru taldar vera innan við 1 millj. kr. eða eins og segir í nál., með leyfi hæstv. forseta.: „Kostnaður ríkissjóðs af ofangreindri lækkun er talinn verða innan við 1 millj. kr., enda eru bílar, sem lækkunin nær til, innan við 100 talsins.“

Á þessum tölum sjáum við að hér er um mjög veigalitla breytingu að ræða. En það kemur ekkert fram varðandi stærri bíla, flutningabílana, nema að veita má afslátt frá 10 og upp í 50% eftir því hvað eknir eru margir kílómetrar. Þegar slíkur afsláttur er veittur verður manni á að hugsa: Þeir sem hafa lítið að gera og litla atvinnu ná ekki þessum afslætti. Það eru aðeins þeir sem hafa mjög mikla vinnu og keyra miklar vegalengdir sem ná upp í 50% afslátt. Er þetta réttlætanlegt? Eiga þeir ekki að greiða jafnmikið til vegakerfisins sem aka mikið og þeir sem aka lítið? Ég held að hér þyrfti að skoða mun fleiri þætti en bara ekna kílómetra.

Það kom fram hjá einum hv. ræðumanni fyrr í dag að það hefði verið mikið til umræðu að lækka þetta gjald vegna vikurflutninga. Þá finnst mér ekki úr vegi að spyrja hv. formann nefndarinnar: Hvað um steinull sem er mjög létt í flutningum? Hvað um flutninga á steinulI eða öðrum þeim varningi sem er léttur í flutningi? Mér finnst mjög óeðlilegt að það sé miðað við yfir 45 þús. km. til að ná 50% afslætti og að miða við sérstaka vöru sem flutt er sérstaka vegalengd, en ef um aðra vöru er að ræða eru bílar ekki samkeppnisfærir við skip vegna þess að auk þess sem Ríkisskip eru styrkt með yfir 100 millj. kr. á þessu ári fá ekki aðrir bílar en þeir sem aka yfir 45 þús. km yfir árið lækkun. Ég held að það séu mun fleiri atriði sem þarf að skoða í þessu máli. Það kæmi kannske í veg fyrir að mönnum væri mismunað eftir því hvaða vöru er verið að flytja og eftir því hvað menn hafa mikla atvinnumöguleika.

Undanfarin tvö ár hafa vörubílstjórar mjög oft kvartað yfir útboðum vegna þess að það hefur hert samkeppnisstöðuna og mjög margir eru atvinnulausir og að missa sínar bifreiðar vegna þess að atvinna hefur dregist saman. Þetta bætir ekki úr fyrir þeim mönnum. Þetta þyngir frekar róðurinn hjá þeim sem fá lítið að gera því þeir verða að borga fullan þungaskatt.

Eins og ég gagnrýndi í 1. umr. um þetta mál er hér að mínu mati um óeðlilega mikla hækkun að ræða sem kemur alls ekki jafnt niður á landsmönnum vegna þess að þeir sem búa langt frá suðvesturhorninu þurfa að greiða mjög háan flutningskostnað. Þessi skattheimta kemur þyngst niður á þeim, eins og ég áður hef sagt. Það er í beinu samhengi við þá skattheimtu sem var lögð á Póst og síma því þar er nákvæmlega sama dæmið á ferðinni. Það er landsbyggðarfólkið sem ber þyngstu byrðarnar. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessu frv., en óska enn fremur eftir því að fá gleggri upplýsingar um þær brtt. sem hér eru lagðar fram.