02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3401 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Vegna þeirra spurninga sem fram hafa komið í þessari umræðu vil ég taka fram varðandi það atriði hversu margir hafi notið fyrirgreiðslu vegna heimildar til afsláttar af gjöldum á jeppabifreiðum að ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um það atriði en svo langt sem tekjudeild fjmrn. hefur komist í upplýsingaöflun hjá skattstjórum, sem gefa út vottorð til niðurfellingar samkvæmt þessari heimild, þá mun hér vera um að ræða 10 til 20 undanþáguheimildir á ári.

Að því er varðar það atriði sem minnst hefur verið á og lýtur að vikurflutningum er þess að geta að þar stendur svo sérstaklega á að flutningskostnaðurinn er mjög stór hluti af heildarútflutningsverðmæti þessara flutninga og því þótti eðlilegt að hafa heimild til að veita tilslakanir í þessu efni, fyrst og fremst vegna þess að flutningskostnaðurinn er svo gífurlega stór hluti af heildarútflutningsverðmætinu og þeir bílstjórar sem í hlut eiga keyra þennan vikur ekki á töxtum heldur samkvæmt sérstökum samningum, allmiklu lægri en samningsbundnir taxtar segja til um. Hugmyndin að baki þessari heimild byggir á því að unnt sé að tryggja að þessi útflutningsstarfsemi leggist ekki með öllu niður. Það er hins vegar rangt að hún sé bundin við eitt kjördæmi. Ég þykist hafa vissu fyrir því að hún er starfrækt af fyrirtækjum í a.m.k. tveimur kjördæmum og kann að vera að það sé víðar.

Um kostnað af þeim breytingum sem hér um ræðir hef ég ekki upplýsingar, en ég get beitt mér fyrir því að hv. fjh.- og viðskn. fái þær upplýsingar í framhaldsumfjöllun um málið.

Ég hef ekki fleiri athugasemdir fram að færa eftir þær umræður sem fram hafa farið.