02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3402 í B-deild Alþingistíðinda. (3043)

126. mál, fjáröflun til vegagerðar

Frsm. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég vil lýsa óánægju minni með þau vinnubrögð, sem nú eru viðhöfð í deildinni, að boða til fundar klukkan hálfsex, þ.e. á þingflokksfundatíma. Báðir þm. Alþfl. í þessari deild voru búnir að binda sig annars staðar kl. fimm, sem ekki varð breytt, og um það var látið vita. Engu að síður er fundurinn settur klukkan hálfsex. Mér berst til eyrna nú að hæstv. fjmrh. hafi verið að svara minni ræðu hér áðan. Ég hefði gjarnan kosið að heyra hans mál og athugasemdir, en gat ekki komið því við þar sem ég var búinn að binda mig annars staðar sem ég gat ekki breytt.

Það virtist ekki hafa komið til tals að boða til þessa fundar kl. 17.30 fyrr en um kl. 16 í dag. Ég verð að lýsa mikilli furðu á þessum vinnubrögðum og mikilli óánægju. Þetta er ekki sú venja sem hefur verið viðhöfð hér í deildinni. Þegar fulltrúar eins þingflokks lýsa því yfir að þeir geti ekki með svo skömmum fyrirvara sótt fund sem boðaður er utan venjulegs fundartíma held ég að venjan sé sú að taka tillit til þess. Ég lýsi mjög eindreginni óánægju með þetta fyrirkomulag vinnunnar hér. Þetta er mjög óvenjulegt. Venjan er sú að það er leitað samstarfs og samráðs við alla þingflokka um fundahöld utan hins venjulega þingfundatíma og venjan er sú að það hefur tekist gott samstarf um það. Það var ekki gert í þessu tilviki og ég harma þessi vinnubrögð.