04.11.1985
Efri deild: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

88. mál, iðnaðarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég stend hér upp fyrst og fremst vegna þess að mitt nafn var nefnt, raunar í sömu andránni og Framsfl. og þykir nú engum mikið. Að því var spurt hvort einhver þáttaskil eða stefnubreyting hefðu orðið þar á bæ varðandi eignaraðild, eftir atvikum, okkar Íslendinga og útlendinga í atvinnufyrirtækjum. Ég hef ekki nýlega frétt af stefnubreytingu í þessum efnum, en það má vel vera að hún hafi orðið að einhverju leyti. Um það vil ég ekkert fullyrða. Nú er það svo að sjónarmið hljóta ævinlega að einhverju leyti að breytast, enda þótt heiti flokka breytist ekki. Það koma nýir menn og nýir siðir.

Ég hefði ekki þurft að standa hér upp til þess að, ef ég má svo að orði komast, aðstoða hv. flm. við málafylgju í þessu máli, en ef ég skil hv. flm. rétt er hér fyrst og fremst um samræmingaratriði að ræða. Mig langar að fara örfáum orðum um það efni. Raunar er það að hluta til tekið fram í grg. með þessu frv. þar sem vikið er að lögum um verslunaratvinnu. Nú vil ég minna á að þegar atvinnumál ber á góma, stofnun fyrirtækja, ekki síst framleiðslufyrirtækja, er það gjarnan það fyrsta og síðasta sem ræðumenn benda á að markaðsmál og markaðssetning séu þættir sem iðulega séu vanræktir, fyrirtæki séu þokkalega búin til framleiðslu á góðum vörum en síðan ekki söguna meir, það gleymist að búa svo um hnúta að hægt sé að selja þennan ágæta varning.

Einu sinni var því haldið fram að okkar stærsta sjálfstæðismál væri verslunin, að hafa hana í eigin höndum, lúta ekki ráðum eða forsjá útlendinga í versluninni. Ég tek undir það. Eigi að síður er í lögum um verslunaratvinnu ákvæði sem varðar eignaraðild.

Meirihlutaeign innlendra aðila er ekki ófrávíkjanleg regla. „Með orðinu verslun í lögum þessum er átt við heildverslun, umboðsverslun, þ.m.t. umboðasöfnun um vörusölu og vörukaup, og smásöluverslun.“

Eins og getið hefur verið um hefur ráðherra heimild til að gera undantekningu frá 1. lið 4. gr. Þar er gert ráð fyrir að einstaklingur fullnægi ákveðnum skilyrðum, hafi íslenskt ríkisfang og heimilisfang á Íslandi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að ráðherra geti heimilað undantekningu frá 5. gr. sömu laga, þ.e. lögum um verslunaratvinnu. Þá vil ég ekki síst benda á þann líð þar sem eftirfarandi stendur: „Sé félag hlutafélag skal hlutafé enn fremur vera að meira en helmingi eign manna búsettra hér á landi, enda sé ekkert í samþykktum félags er brjóti í bág við íslensk lög.“

Framleiðsla og sala eru svo nátengdir og raunar óaðskiljanlegir þættir að ég tel fullkomlega eðlilegt að ekki verði mismunað í löggjöf hvað eignaraðild varðar. Hv. flm. er einfaldlega að leggja til að þarna sé sami háttur á hafður, hvort heldur um væri að ræða framleiðslufyrirtæki eða verslunarfyrirtæki.

Nú skal ég minna á það, og það benti hv. flm. rækilega á að væri að sjálfsögðu meginregla, enda gerir frv. ekki ráð fyrir öðru, að við Íslendingar eigum okkar framleiðslutæki og eigum þau fyrirtæki sem starfi í landinu. Vonandi blandast engum hugur um að það er vilji hv. flm. og þess flokks sem hann er fulltrúi fyrir og ég raunar líka.

Mér sýnist einboðið að það sé hægt að fara á svig við iðnaðarlög ef einhver hefur áhuga á því. Það er hægt að stofna samtímis hlutafélög af tvennum toga, annars vegar fyrirtæki sem hafi framleiðslu að meginverksviði og hins vegar sölufyrirtæki sem heyri undir lög um verslunaratvinnu, og með þeim hætti að opna leið fyrir ráðherra að veita undanþágu sölufyrirtækinu, opna leið erlendra aðila með sitt fjármagn á grundvelli meirihlutaaðildar sem nýtist í raun framleiðslufyrirtækinu. Ég vil aðeins benda á þetta. Og þá er það spurning: Af hverju ekki að gera löggjöfina einfaldari og skilvirkari svo að ekki sé um að ræða einhverjar krókaleiðir í þessu efni?

Ég vona að menn misskilji mig ekki og telji að ég sé hér að gerast talsmaður erlendra aðila í fjárfestingu. Síður en svo. Hins vegar vil ég vera raunsær og segja þá skoðun mína að ég tel fullkomlega eðlilegt að við nýtum, eftir því sem okkur þykir hagkvæmt, erlent fé. Því miður höfum við farið gáleysislega í sakirnar á undanförnum árum og því miður hefur ekki orðið sá arður í þjóðarbúið af erlendum lántökum sem sumir væntu. Því miður hefur svo orðið. Menn neyðast því til að hamla allverulega gegn erlendum lántökum nú um sinn.

Það væri að mörgu leyti æskilegt um þessar mundir að við hefðum þjóðhagslegt svigrúm til að veita, enda þótt erlent fé sé, til framleiðslustarfsemi í landinu að meginhluta til á grundvelli okkar forræðis. Er ég þá ekki að tala um hvert einstakt fyrirtæki, heldur að samanlögðu.

Ég vil minna á XVII. kafla laga um hlutafélög sem þykir afskaplega merkileg löggjöf. Ég veit að hv. flm. er gjörkunnugur þeirri löggjöf. Þessi kafli laganna er um erlend hlutafélög. Að vísu er þar gert ráð fyrir gagnkvæmni, þ.e. að íslensk hlutafélög njóti sama réttar í heimalandi hinna erlendu félaga sem hér kunna að verða sett á fót. Ég vil aðeins minna á þetta.

En um það frv. sem hér er til umræðu verður auðvitað fjallað í iðnn. Komi í ljós við þá umfjöllun að hér sé verið að opna allt upp á víða gátt, eins og hér hefur verið komist að orði, geri ég ekki ráð fyrir að frv. eigi greiða leið í gegnum þingið og ekki einu sinni í gegnum iðnn. En mín skoðun er að svo sé ekki. Hér sé ekki verið að opna upp á víða gátt. Á því sé ekki hætta. Hér sé fyrst og fremst á ferðinni að samræma löggjöf. Ef ekkert nýtt kemur fram í þessu máli frá því sem þegar hefur gerst mun ég styðja þetta frv.