02.04.1986
Efri deild: 68. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3404 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

Um þingsköp

Helgi Seljan:

Herra forseti. Mér skilst að það hafi verið samið, þó ekki við alla þingflokka einu sinni, í dag um að fundur yrði hér milli kl. 5.30 og 7.00. Nú lifa eftir þrjú kortér af þessum áætlaða fundartíma. Ekki veit ég hversu stjórnarliðið þarf lengi að verja gerðir sínar í framsögu hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, en hitt veit ég að ég þarf allan þennan tíma a.m.k. til að mæla fyrir mínu nál. og hrekkur ekki til þannig að ég hygg að forseti verði að ákveða og reyna að komast að samkomulagi við menn um lengri fundartíma eða þá að öðrum kosti að fresta málinu við svo búið.