02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3409 í B-deild Alþingistíðinda. (3058)

383. mál, siglingalög

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á siglingalögum, nr. 34 frá 19. júní 1985. Ég geri það í fjarveru og í nafni samgrh.

Í athugasemdum við frv. segir: „Öryggismálanefnd sjómanna, er samgrh. Matthías Bjarnason skipaði 30. mars 1984, skilaði áfangaskýrslu ásamt tillögum um úrbætur í öryggismálum sjómanna í október 1984. Er þar m.a. lagt til að rannsóknir sjóslysa, sjópróf, verði færðar í nútímalegt horf, sbr. rannsóknir umferðar- og flugslysa. Bent er á að frumrannsóknir sjóslysa séu ekki nægilega vandaðar og nauðsynlegt sé að nákvæm rannsókn fari fram þegar um meiri háttar slys sé að ræða eins og gert er þegar umferðar- og flugslys verða.

Hinn 29. jan. 1985 skipaði samgrh. nefnd sem gera á tillögur um framkvæmd þriggja tillagna öryggismálanefndarinnar, m.a. um rannsókn sjóslysa. Samþykkti sú nefnd að leggja fram frv. þetta til breytingar á 230. gr. siglingalaga.

Nefndin, sem samdi frv. til l. um Siglingamálastofnun ríkisins, hefur enn fremur lýst sig efnislega samþykka frv.“

Ég sé ekki ástæðu til að fylgja þessu frv. úr hlaði með frekara tali, en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. samgn. Nd.