02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (3065)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um selveiðar við Ísland, en frv. þetta er flutt í þriðja sinn. Hringormur er sífellt vaxandi vandi í sjávarútvegi og brýnt að þetta mál verði afgreitt sem fyrst.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að endurtaka framsögu mína fyrir þessu máli áður á Alþingi, en um það urðu verulegar umræður á s.l. ári og því ætti þessi umræða að geta orðið nokkru styttri. Vildi ég þá fyrst og fremst gera grein fyrir þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þessu frv. frá því að það var síðast flutt.

Í fyrsta lagi er kveðið á um í 2. gr. að senda skuli rannsóknaráætlanir til Hafrannsóknastofnunar áður en rannsóknir hefjast, en Hafrannsóknastofnun hafði lagt á það áherslu og tel ég sjálfsagt að svo sé gert og ekki síðra að það sé tekið fram í lögum, en að sjálfsögðu er Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt að fylgjast ávallt með gangi rannsókna ef öðrum aðilum er falið að framkvæma þær að einhverju leyti.

Í öðru lagi er breyting á 3. gr., en þar er ákvæði um þá aðila sem sjútvrn. skal hafa samráð eða samvinnu við. Hér er nokkuð komið til móts við þá gagnrýni sem fram kom varðandi þetta atriði við umræður um málið áður. Hér er gert ráð fyrir því að sjútvrn. hafi samráð við Náttúruverndarráð, Búnaðarfélag Íslands, Fiskifélag og Hafrannsóknastofnun varðandi ákvarðanir er lúta að friðun eða fækkun sela, en áður var einungis gert ráð fyrir slíku samráði varðandi stjórn og skipulagningu selveiða. Hér er ekki um mikla breytingu að ræða, en telja má að hér sé um skýrara orðalag að ræða.

Þá er gert ráð fyrir samvinnu milli sjútvrn. og landbrn. við framkvæmd laganna sem einnig er eðlilegt. Ég vil taka skýrt fram að hér er ekki á nokkurn hátt hróflað við einkarétti landeigenda til veiða í landareignum sínum. Þessi réttur er þvert á móti staðfestur í 4. gr, frv.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þess sem áður hefur komið fram við umræður hér á Alþingi um málið af minni hálfu og vil leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. sem hefur fjallað um málið áður. Vænti ég þess að nefndin reyni að ljúka málinu sem allra fyrst því að þrátt fyrir minni háttar ágreining um mál þetta, sem ég tel vera, eru allir sammála um að nauðsynlegt er að það sé stjórn og skipulagning á þessum veiðum og ætti að vera öllum til hagsbóta, jafnt sjávarútveginum og þeim landeigendum sem þarna eiga hagsmuna að gæta vegna sinna hlunninda.