02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (3066)

368. mál, selveiðar við Ísland

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er lagt fyrir, og mælt fyrir í þriðja sinn, stjfrv. til laga um selveiðar við Ísland. Eins og kom fram í máli hæstv. sjútvrh. leggur hann áherslu á að frv. þetta verði lögfest á þessu þingi þótt ekki sé gert ráð fyrir að þingið sitji nema nokkrar vikur í viðbót og þingstörfum ljúki fyrir lok þessa mánaðar. Það vekur athygli að þrátt fyrir þessa áherslu af hálfu ráðherrans, sem ekki er óeðlileg, þá skuli frv. þetta fyrst vera lagt fram svo síðla á þingi. Ber það eitt út af fyrir sig ekki vott um að allt of mikill hugur fylgi máli af hálfu ráðherra því að sáralitlar breytingar hafa verið gerðar á þessu máli frá því það var síðast lagt fyrir þingið. Ég hef ekki borið ítarlega saman þetta frv. og það sem rætt var hér á síðasta þingi en eins og fram kom í máli ráðherra þá eru það aðeins smávægilegar breytingar sem þarna er um að ræða.

Ég hefði talið að önnur vinnubrögð hefðu verið skynsamleg af hálfu ríkisstj . í þessu máli og þó fyrr hefði verið, þ.e. að taka eitthvert mið af þeirri miklu gagnrýni sem fram hefur komið á þetta frv. við fyrri umfjöllun um það hér í þinginu. (Gripið fram í: Í hverju er sú gagnrýni fólgin?) Má í því sambandi vísa til þingskjala og umræðna sem hér hafa farið fram og get ég komið þeim gögnum í hendur hv. 7. þm. Reykv. ef hann vill kynna sér málið svo sem vert er og skynsamlegt af hans hálfu, að átta sig á því hvaða gagnrýni hefur þarna verið fram sett.

Ég ætla ekki við 1. umr. málsins að fara ítarlega út í þau efni; ég gerði það hér við fyrri umræður um þetta mál. Og ég sé ekki að þær óverulegu breytingar sem hæstv. ráðh. hefur lýst hér á þessu frv. hafi breytt efnislega neinu teljandi í sambandi við þá gagnrýni sem ég hef fram sett og fram hefur komið frá ýmsum öðrum. Ég vil aðeins nefna það hér við þessa 1. umr. að það sem er ekki síst álitamál í þessu efni er það mikla vald sem ráðherra er veitt í sambandi við þessi mál skv. 6. gr. Þar er í rauninni verið að setja stimpil á nefnd sem starfað hefur á vegum sjútvrn. frá 1979 og kölluð hefur verið hringormanefnd. Hefur starfsemi hennar vakið verulega úlfúð hjá mörgum, þar á meðal landeigendum og þeim sem hafa haft hlunnindanytjar af sel, en einnig hafa verið vefengdar þær fræðilegu forsendur sem nefndin hefur haldið fram í sambandi við störf sín. Á þær hefur komið fram mjög veigamikil og rökstudd gagnrýni frá aðilum sem ég tel færari um að leggja mat á þau efni en fremstu talsmenn hringormanefndar, þar á meðal hv. 5. þm. Norðurl. e. sem mjög hefur komið við sögu í því máli. Ég get nefnt hér nafn Arnþórs Garðarssonar prófessors, sem hefur látið frá sér fara efnislegt álit á þeim vinnubrögðum sem þarna hafa verið tíðkuð. Ég hef ekki heyrt að það stæði til af hálfu sjútvrn. að breyta til frá því sem verið hefur heldur sé hér fyrst og fremst verið að fá lagalegan stimpil á þau vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið á vegum svonefndrar hringormanefndar.

Ég er ekki að vefengja það að skynsamlegt sé að hafa stjórn á selveiðum og leitast við að taka á selveiðum í ljósi þekkingar hverju sinni og með þeim hætti að það sé líklegt til að skila þeim árangri sem menn vilja ná, hvort sem um er að ræða að minnka hið svonefnda hringormavandamál, sem að hluta til er rakið til selastofna við landið, þó að deildar meiningar séu um þátt selsins í stærð þess vandamáls, og einnig hitt, sem bent hefur verið á af ýmsum þeim sem hafa viljað fá þær lagaheimildir sem lagt er til í frv., að selastofnarnir séu keppinautur við manninn um nytjastofna, um ha nýtingu nytjastofna og þar á meðal þorskstofnsins. Ég er sem sagt hvetjandi þess að sett verði löggjöf og endurskoðaðar verði reglur varðandi selveiðar og tel að það sé mjög nauðsynlegt, en ég hefði viljað sjá þar ýmsu hagað með öðrum hætti heldur en gert er ráð fyrir í frv. þessu og hef bent á þau efni við fyrri umræður um þessi mál.

Í þessu frv., eins og í fyrri frv., kemur m.a. fram að verið er að fella úr gildi gömul ákvæði um selveiðar, þar á meðal frá júní 1925, um selskot á Breiðafirði og uppidráp, eins og þau eru kölluð. Þar er verið að fella úr gildi ákvæði sem ég hygg að margir, sem hafa haft hlunnindanytjar af sel og bera fyrir brjósti að eðlilega sé um selalátur gengið, hafi gagnrýnt og liggja fyrir ýmis erindi frá mönnum við Breiðafjörð þar að lútandi.

Ég vil taka mönnum vara við að einfalda það samhengi sem um er rætt í sambandi við selinn, bæði sem keppinaut um nytjastofna og einnig að því er varðar margumrætt hringormavandamál. Það verða engin vandamál leyst með útrýmingu á einni dýrategund. Slík inngrip inn í náttúruna eru ekki skynsamleg. Er ég ekki að gera því skóna að þeir, sem mæla fyrir þessu frv., ætli sér slíkt eða séu hvetjandi þess að útrýma selastofnunum við landið, en ýmislegt í málflutningi þeirra sem að þessum málum hafa unnið og þeirri herferð sem hringormanefnd hefur beitt sér fyrir, ýmislegt úr máli þeirra ber keim af því að réttast væri að ganga svo róttækt til verka að fækka selnum við landið niður í lágmark og jafnvel að um útrýmingu geti verið að ræða.

Ég geri ráð fyrir því að þetta mál fái eðlilega meðferð í þingnefnd og verði síðan rætt hér. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að bregða fæti fyrir það, og hef aldrei ætlað mér, að sett verði löggjöf um selveiðar í ljósi núverandi þekkingar og með skynsamleg vinnubrögð í huga í þessu máli. Ég vænti þess að menn finni leið til þess að ná saman um þessi efni, en það verður áreiðanlega ekki með því að lögfesta þetta frv. óbreytt eins og það liggur hér fyrir.