02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

368. mál, selveiðar við Ísland

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal viðurkenna það að ég hef oft verið spurður að því, þegar ég hef komið í frystihús úti á landsbyggðinni, hvernig á því standi að engar ráðstafanir séu gerðar gegn selnum. Í heilu landshlutunum hefur hringormafjöldi ekki einungis tvöfaldast heldur víða meira en þrefaldast og verðmæti þeirrar vinnu verkafólks í frystihúsum sem verður til vegna hringormanna skipta hundruðum milljóna króna. Ég býst við að hægt væri að hækka kaup verkafólks í fiskiðnaði, ja, t.d. um 1/3 ef eitthvað væri gert í þessum efnum. En það er ekki hægt að ná svona einföldu máli í gegn eins og þessu, sem skiptir afkomu undirstöðuatvinnugreinar okkar jafngífurlegu máli út af formsatriðum, fegurðarsjónarmiðum. É,g vil ekki segja nema gott eitt um hv. 5. þm. Austurl. en það mætti vel segja mér, þó hann sé maður gagnmenntaður í líffræði, að það sé með hann eins og fleiri að honum finnist selurinn hafa falleg augu og þá gildir það sem skáldið sagði, að þar ríkir fegurðin ein ofar hverri kröfu.

Ég held að það fari ekkert á milli mála að hvar sem farið er í kringum landið og rætt er við sjómenn, rætt við þrautreynda sjómenn sem stundað hafa fiskveiðar, að þeir eru undantekningarlaust, ég hef ekki rekist á annað, á því að þessi gífurlega aukning hringorms í fiski stafi fyrst og fremst af fjölgun selsins. Ég vil aðeins nefna sem dæmi að þegar nefnd fer til Noregs til að kynna sér afköst fiskverkunarfólks kemur í ljós að þau eru meiri í Noregi. Þó ekki vegna þess að vinnuhraðinn sé meiri, það eru að vísu ýmsar ástæður sem grípa þarna inn í, heldur hins að tafirnar hér heima út af hringorminum eru það miklar að afköst verða þar af leiðandi minni hér.

Hvernig í ósköpunum er nú hægt að láta svona mál daga uppi þing eftir þing út af vafasömum líffræðikenningum, út af því að menn vilja halda í einhverja sérstaka hagsmuni landbrn. eða vinna sér hylli ákveðinna selabænda? Og virði ég nú hv. 1. þm. Norðurl. v. vel fyrir dugnað hans og framgöngu fyrir bændur. Ég sé ekki að það yrði neitt stórslys þó að bætt yrði úr þessu böli sem hringormurinn veldur og kemur fyrst og fremst niður á sjávarútveginum, enda segir í 3. gr. eins og hv. 2. þm. Reykn. tók fram:

"Sjútvrn. skal hafa samvinnu við landbrn. við framkvæmd laga þessara og samráð við Náttúruverndarráð, Hafrannsóknastofnunina, Búnaðarfélag Íslands og Fiskifélag Íslands varðandi ákvarðanir er lúta að friðun eða fækkun sela.“

Ja, mikið skal staðinn vörður hjá fyrrum ráðherra um sín ráðuneyti. Ég held að menn verði að leggja þennan metnað sinn eitthvað til hliðar og ég held að menn verði að horfa á það að þessi atvinnuvegur á í erfiðleikum og gefa gaum að hversu illa gengur að manna hann og að hægt væri að veita fólki betri kjör og selja miklu betri vöru ef hægt væri að draga úr hringormi í fiski. Nú má vel vera að þarna komi einhverjir fleiri þættir til en selurinn, en þetta er afgerandi meginástæða. Og það er ekki vansalaust fyrir Alþingi að láta svo endalaust tína upp einhver hugsanleg aukaatriði, einhver hugsanleg túlkunaratriði, hvort eitthvað sé gengið á hlunnindi bænda eða ekki. Það er gengið þarna á grunnatvinnuveg íslensku þjóðarinnar og það svo hundruðum milljóna skiptir og þetta gengur ekki lengur. Alþingi getur ekki staðið frammi fyrir þjóðinni og sagt: Við komum okkur ekki saman um hvernig eigi að leysa þetta vandamál.

Það sagði mér gagnmerkur samtíðarmaður að nú yrði þetta hringormamál leyst, nú mundu áhrifamenn í þjóðfélaginu snúast á sveif með öllum þeim aðgerðum er fækkað gætu hringormi. „Hvað hefur skeð?" varð mér að orði. „Hvað hefur skeð, er þetta einhver áhrifamikill hópur?" „Gífurlega áhrifamikill," var sagt. Ég fór eitthvað að líta í kringum mig og var engu nær. „Jú, það kom nefnilega upp úr kafinu í sumar að í þremur löxum sem veiddust voru tveir hringormar.“ Ja, það er von að menn grínist með hlutina. Við erum búnir að fórna í þennan ófögnuð svo hundruðum milljóna króna skiptir ár eftir ár og svo körpum við um undir hvaða ráðuneyti þessi mál eigi að falla, en getum ekki komið okkur saman um að halda selastofninum niðri og nefnum svo einhverjar líffræðilegar ástæður aðrar. Grunnorsökin er þessi. Hvort það eru einhverjar hliðarorsakir aðrar skal ég ekki um fullyrða.

Ég vildi bara að endingu skora á sjútvn., sem fær þetta mál til meðferðar, að leita umsagnar Sjómannasambands Íslands, Verkamannasambands Íslands, þess fólks sem vinnur í þessum greinum. Þar mun nefndin fá afgerandi svar: Að það sé Alþingi til vansæmdar að vera ekki búið að afgreiða þessi mál