02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3422 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

368. mál, selveiðar við Ísland

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hafa menn rætt um seli og syndaseli og jafnvel virðulegir lögfræðingar telja að aftakan sé sjálfsögð án þess að fyrir liggi hvort heldur þar fari selir eða syndaselir. Því er einnig haldið á lofti að veiðin nú sé sáralítil. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í frv., var selveiði frá 1964 til 1977 sú mesta sem verið hefur á Íslandi eftir 1928. Og hver er staðan í dag? Við erum að veiða 91% að magni á hverju ári miðað við þessi ár þegar mest hefur verið veitt. Samt fjölgar hringorminum alveg miskunnarlaust. Er eitthvert samræmi á milli þess að telja nú að veiðarnar séu í slíkum ólestri að þegar við veiðum 91% á ári af sel miðað við það sem mest hefur verið veitt eftir 1928, þá sé hægt að segja að selnum fjölgi svo ört að það sé ástæðan? Ég held að menn verði að grípa til heilbrigðrar rökhyggju og fara að hugsa sinn gang.

Gengur það upp, stenst það stærðfræðilega að þreföldun, fjórföldun eða fimmföldun á hringorminum geti átt rætur sínar að rekja til þess að það vanti 9% upp á að við náum þeirri veiði sem mest hefur verið við Ísland eftir 1928? Og nú vil ég spyrja þann ágæta dreng, hv. 7. þm. Reykv.: Finnst honum þetta trúleg fræði? Finnst honum þetta trúleg fræði að 9% skekkja geti skapað þreföldun, fjórföldun eða fimmföldun á hringormum? Ég segi fyrir mig: Ég trúi þessu ekki. Ég hef líka verið á fundum úti á landi þar sem sjómenn hafa verið og við Húnaflóa spurði einn sjómaður mig: Vitið þið hvort mávarnir dreifa hringorminum? Þ.e. hvort þeir sem dýr með jafnheitt blóð geta tekið að sér hlutverk hvala og sela í þeim efnum að vera hýsill fyrir hringorminn. „Ég veit að það er fullt af hringormi í skarfinum," sagði hann. Og hvað er mér sagt við Breiðafjörð? Skarfurinn er fullur af hringormi. (HBl: Það er nú farið að minnka um skarfinn.) Þeir eru enn til og það í þingsölum meira að segja.

Ég vil vekja athygli á því að þegar ég er ungur maður vestur á fjörðum þá var það nánast óþekkt að hringormur kæmi úr fiski sem veiddur var á Halamiðum. Og að hringormur kæmi úr fiski sem veiddur var í nágrenni við Grænland, þar sem allt er fullt af sel, það var aldrei rætt um þá hluti fyrir vestan á þeim árum. En eftir að menn hættu að hirða lifrina, þá elti múkkinn togarana á haf út. Það skyldi þó ekki vera að afleiðingin af því tiltæki væri sú að hann sæi til þess að hringormurinn er kominn langt út á Halamið? Hvor skyldi fara fljótar yfir, múkkinn eða selurinn? Hvor skyldi vera trúlegri til þess að dreifa hringormi 50-70 mílur út af Vestfjörðum? Er ekki tímabært að menn geri það upp við sig hvort menn eru að tala um selinn eða syndaselinn?

Hitt er svo annað mál að þessu er stillt hér upp þing eftir þing á þann veg að það sé einhver sérstakur hópur þm. sem vilji ekki stuðla að því að eðlilegur selafjöldi sé við strendur landsins. Ég auglýsi eftir þeim hóp sem ekki vill stuðla að því að hafa þar eðlilegan fjölda. Ég held að hver einasti þm. telji eðlilegt að það sé haft eitthvert „kontról“ á þessu. En þá komum við að hinu atriðinu og það flokkast undir heilbrigða skynsemi: Hafa menn gleymt því þegar þeir lásu um landnámsmennina sem komu til þessa lands og hófu hér veiðar hvers vegna þeim gekk veiðin vel á hvölum og selum? Vegna þess að hér voru öll dýr óvön því að varast manninn. Þess vegna getur einn maður með kylfu drepið fleiri, fleiri seli enn á Breiðafirði, af því að þeir eru óvanir því að varast manninn hvað þetta snertir. En verði byrjað á því að fæla hann með skotvopnum, fæla hann um allan Breiðafjörð og út, haldið þið að það verði afköst við veiðarnar eftir það? Hvort skyldi vera betra að drepa spakan sel eða styggan? Hvort skyldi vera betra? Hver er ástæðan fyrir því að það er ekki leyft að hvaða fífl sem hefur byssuleyfi fari um lönd og skjóti á refi á þeim tíma sem auðveldast er að drepa þá, þ.e. yfir grenjatímann? Hver er ástæðan? Vegna þess að það væri margfalt, margfalt verk fyrir refaskyttuna á eftir að hafa hendur í hári refsins. En núna leggja menn til að Breiðafjörðurinn verði opnaður fyrir mönnum sem fari þar inn með langdræga riffla og skjóti eftir flötum haffletinum í allar áttir. Og hvert fara þau skot sem geiga? Vita menn það? Það er verið að tala um byssur af þeim styrkleika að þær drepa á fleiri kílómetra færi.

Og svo er það annað. Reglur um æðarvörp eru á þann veg að það er óheimilt að hleypa af skotvopni í vissri fjarlægð frá varpstöðvum. Hver ætlar að fylgjast með því, eftir að búið er að opna Breiðafjörðinn almennt fyrir skotum, að hvert það skip sem þar er á ferðinni og hleypir af byssuskoti sé í eðlilegri fjarlægð? Það verður enginn sem fylgist með því. Og að menn geti gætt réttar síns í þessum efnum? Vonlaust. Gersamlega vonlaust. Hvar er staðsetningarútbúnaðurinn til að fylgjast með 30, 40, 50 skotglöðum mönnum sem væru á veiðum þarna? Það þyrfti mikið lið til þess.

Það er leikur einn að fækka selnum ef menn vilja þó menn virði leikreglurnar sem hafa verið í gildi um Breiðafjörð og sel í Húnaósi. Það er miklu auðveldara líka að gera það ef menn virða regluna. Það sem þarf einfaldlega að gera er að borga mönnum þann mismun sem vantar upp á að verðið á selskinnunum skili þeim afrakstri að það sé arðbært að stunda þessar veiðar og svo er sjálfsagt að skjóta selinn á hinum svæðunum, m.a. út af Vestfjörðum og þar sem hann er út af annesjum á öðrum tímum ársins, þannig að eðlilegur fjöldi sé af sel við strendur landsins.

Þetta þarf ekki að vera neinn ágreiningur. Hann er búinn til hér í þingsölunum af mönnum sem berja höfðinu við steininn og neita að horfa á þær leikreglur sem hafa verið í gildi og hafa skilað þeim árangri að selur var ekki vandamál við strendur landsins. Staðan í dag er að við veiðum 91% af þeim fjölda sem veiddur var á árunum 1964-1977. Árið 1978 kemur verðfallið. Heimildirnar eru frv. og hér láta menn eins og himinn og jörð séu að farast. Það vanti 9% upp á veiðina.

Ég harma mjög að á þeirri öld þegar fullt er af líffræðingum sé ekki hægt að fá þá vinnu unna á eðlilegan hátt, fá úr því skorið hvort fuglarnir, mávarnir, eru þarna orsakavaldur númer eitt gagnvart hringormi á djúpsævi eða hvort það er selurinn. Ég tel aftur á móti að það sé hollt fyrir menn hér inni að gera sér grein fyrir því að friðun Breiðafjarðar er jafnmikið mál fyrir Breiðfirðinga út frá náttúrlegu sjónarmiði og náttúruvernd og þeim hagsmunum og ef menn legðu til að leyfð yrði skothríð á Mývatni um varptímann. Ég bið menn að hugleiða að það er ekki að ástæðulausu að þessi regla er tekin upp.

En hver er þá staðan í þessu? Er fyrirsjáanlegt um aldur og ævi að verðfall á selaskinnum sé slíkt að það sé vonlaust að þessar veiðar geti komist í það horf að þeir sem búa við Breiðafjörð sjái sér hag í því að veiða selinn eins og gert var? Það er vitað að Norðmenn voru á seinasta ári að byggja tvær sútunarverksmiðjur til að súta selskinn og sá grænlenski aðili sem aðallega hefur verið að láta sauma úr selskinnum fékk ekki nægilega mikið af skinnum á seinasta ári til sinnar starfsemi. Það er ekki trúlegt, þó ekki sé meira sagt, að þessi markaður þróist á þann hátt að verð á skinnum, t.d. refaskinnum, minkaskinnum og annarri grávöru, haldist í svimandi hæð, en það verði um aldur og ævi talin hrein glæpastarfsemi að drepa seli og hirða af þeim skinnin. Er þetta trúlegt? Nei, þetta fær ekki staðist. Það er búið að ná þessum árangri í örfá ár, en það hlýtur að koma að því að verðið á skinnunum fer aftur upp. Það sem ætti að gera núna er einfaldlega að kaupa skinnin á því verði sem þarf til að koma veiðunum í eðlilegt horf á þessum stöðum og það á að geyma skinnin og selja þau þegar verðið hækkar.

Dettur nokkrum í hug að ég t.d. sem 5. þm. Vestf., þar sem hagsmunirnir eru svo ærnir að hreinsa orminn úr fiskinum, vitandi um þann kostnað sem þessu fylgir, mundi berjast gegn því að á því fengist sanngjörn lausn? (HBl: Það dettur mönnum í hug, já.) Það er það merkilega. Það dettur mönnum í hug. Þarna komum við nefnilega að kjarna málsins. Þetta mál er ekki sótt með rökum skynseminnar. Það er sótt með alls konar tilfinningaþvælu. - Þarna er sökudólgurinn. Takið hann af lífi. Það eru vinnubrögðin. (GJG: Engin réttarhöld.) Engin réttarhöld. Fyrirmyndin að leikreglunum er eins og var í villta vestrinu þegar voru hengdar upp myndir og verðlaunin skrifuð við: Peningaupphæðin fyrir hausinn - nema það er gengið frá því hérna að þeir skulu fluttir dauðir en ekki lifandi til byggða.

Ég held að þeir sem ræða við menn sem hafa mestalla ævina stundað selveiðar, setjast niður með þessum mönnum, spjalla við þá um afköstin við þetta, hvernig hafi verið farið að þessu og átti sig á því hvað þessir atvinnuhættir voru háþróaðir, hversu vel var að því verki staðið með lágmarksvinnu að ná sem mestu, hljóti að spyrja að því: Eru þetta ekki álíka vitlaus vinnubrögð, sem menn eru að leggja til að hér verði upp tekin, og notuð eru við laxveiðiárnar þegar menn sjást þar með stöng á bakkanum og eina krekju veiðandi lax, miðað við að fornmenn kunnu þá reglu: Á skal að ósi stemma - og stífluðu t.d. Reyðarvatnið og hirtu svo á einum degi upp úr ánni með því að veita vatninu. Haldið þið að þessum gömlu mönnum, ef þeir horfa á leikreglurnar og nokkra stráka í sumarfríinu á hraðbátum leikandi sér inn um Breiðafjörð við að fæla selinn, mundi ekki detta í hug að það vantaði ekki svo lítið í kollinn á þeim mönnum sem hefðu lagt til að þessi vinnubrögð yrðu upp tekin?

Nei, það er engum vandkvæðum bundið að veiða þann sel sem við þurfum að veiða við landið. Það er bara að snúa sér að því. En það er algjört glapræði ef menn taka ákvörðun um að 8. gr. þessa frv. verði að lögum. Ef 8. gr. verður að lögum eru menn að breyta hinu friðsæla lífríki Breiðafjarðar í lífríki þar sem enginn er óhultur meðan sú skothríð stendur yfir sem verið er að leggja til. Og það er hart að mönnum sé stillt upp á þann veg að ef þeir ekki samþykki vitleysuna eigi að stimpla þá sem andstæðinga þess að stundaðar séu þær selveiðar við Ísland sem þarf til að draga úr fjölda hringorms. Það dregur enginn í efa að selurinn er einn af orsakavöldunum í því sambandi. Hins vegar trúi ég því ekki að hann sé sökudólgurinn þegar menn eru komnir 50, 70 eða 80 sjómílur frá landi.