02.04.1986
Neðri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3426 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

368. mál, selveiðar við Ísland

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er sennilega rétt að byrja á að taka það fram til að forða óþörfum misskilningi að mér er meinilla við hringorm og er ekkert sérstaklega ástfólginn selnum heldur. Það er að vísu rétt að selurinn hefur falleg augu, en ég er ekki þeirrar skoðunar að það eitt geti orðið honum til ævarandi friðhelgi. Ég hef samt ýmsar athugasemdir við þetta frv. og vil koma nokkrum þeirra helstu á framfæri.

Ég vil í fyrsta lagi átelja á hversu veikum vísindalegum grunni þær hugmyndir, sem mjög er grunnt á hjá mörgum ræðumönnum, byggja, að með því einu að fækka selnum umtalsvert sé hægt að leysa hið svonefnda hringormavandamál í fiski við landið. Þetta er byggt á vægast sagt veikum vísindalegum grunni og illa rökstuddum. Og ég hlýt að spyrja í framhaldi af því: Hvers vegna er þetta frv. lagt fram eina ferðina enn án þess að því fylgi nokkur minnsta tilraun til vísindalegs rökstuðnings hvað þetta varðar? Maður hefði átt von á því að hæstv. sjútvrh. og hans embættismenn hefðu notað tímann til að afla sér vísindalegra gagna og vísindalegs rökstuðnings fyrir því að samhengi selafjölda og hringorms sé eins og þeir vilja vera láta og þar af leiðandi sé réttlætanlegt að grípa til jafnvíðtækra aðgerða til fækkunar á sel og uppi eru hugmyndir um. En ég vík ofurlítið nánar að þessu síðar, herra forseti.

Ég vil einnig segja að gagnrýni mín er að nokkru leyti stjórnskipulegs eðlis. Ég tel ákaflega óheppilegt að dreifa málaflokkum sem þessum milli ráðuneyta og ég tek undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram, að eðlilegast væri að eitt ráðuneyti færi með þennan málaflokk. Ég minni á að hv. þm. Kjartan Jóhannsson, sem reyndar kom á fót svonefndri hringormanefnd á sínum tíma, mun hafa látið orð fallá um það á Alþingi s.l. vetur að hann teldi eðlilegt að þetta heyrði undir landbrn.

Þá mætti nefna enn fremur að nýting selastofna og umgengni um selastofna og selalátur eru á sinn hátt umhverfismál og á þar af leiðandi þar heima einnig í stjórnskipun landsins. Ég tel að þörfin á lagasetningu um selveiðar eða heildarlöggjöf um selveiðar séu engar röksemdir fyrir því að standa að málum með þeim hætti sem hér er lagt til. Þó að ég sé ekki að draga úr því að það geti verið skynsamlegt að setja um þetta tiltekna efni löggjöf eru það engin rök fyrir því að færa þetta mál með þessum hætti undir sjútvrn. og skipta þessum málaflokki upp milli ráðuneyta.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnast ræðuhöld manna hér um það að bévaður selurinn éti fisk svolítið kómísk. Þegar menn taka sig til og fara að ræða um lífríkið með þessum hætti verð ég að segja eins og er að mér finnst að menn ættu að lesa sér svolítið til eða hugleiða málið áður en þeir halda yfir manni svona ræður. Ætlar maðurinn, þessi skepna, homo sapiens, að taka sér það vald að fara að þurrka út úr náttúrunni eða stórfækka í náttúrunni þeim tegundum sem eru henni og hennar afkomu ekki æskilegar? Og halda menn virkilega að maðurinn, homo sapiens, hafi það vald í náttúrunni? Ég segi nei. Hann hefur oft gert tilraunir til þess. Aftur og aftur hafa menn brennt sig á þeirri miklu vitleysu í stórmennskuæði sínu að halda að þeir geti betrumbætt sköpunarverkið, lagað til náttúruna, það sem meistaranum mistókst í sköpuninni sé hægt að laga til með gáfulegri lagasetningu f.d. á Alþingi Íslendinga. Þetta er ekki svona einfalt. Samspil tegundanna í lífríkinu er flóknara en þetta. Menn ganga ekki út á völlinn og benda á þær tegundir sem séu til bölvunar og segja: Burt með þessa og burt með hina, fækkum þessari og fækkum hinni og nýtum okkur svo það sem eftir er. Þannig er ósköp einfaldlega ekki samspilið í vistkerfunum, allra síst í hafinu sem er langstærsta og langflóknasta vistkerfi lífríkisins á jörð. Þessi útrýmingartónn, sem mér finnst vera ansi grunnt á hjá sumum ræðumönnum, er satt best að segja harla broslegur, m.a. í þessu ljósi. Það er auðvitað einkenni mikilmenna á öllum tíma að þau langar til að taka til hendinni og jafnvel betrumbæta sjálft sköpunarverkið, en þá færast menn meira í fang en þeir eru menn til að standa við, leyfi ég mér að fullyrða.

Ég vil einnig gagnrýna það aftur þegar menn á svo veikum grunni eru með fullyrðingar um að málið leysist ósköp einfaldlega á þann hátt að fækka selnum og við sem höfum ekki viljað kyngja þessum röksemdafærslum umyrðalaust erum bornir ýmsum býsna þungum sökum, við séum í raun og veru dragbítar á framþróun í íslenskum sjávarútvegi, við viljum ekki hækka laun starfsfólks í fiskvinnslu o.s.frv. o.s.frv. Ég verð að segja eins og er að mér finnst ansi hart að sitja undir svona ásökunum. Ég tel mig ekki þurfa að taka slíku þegjandi. Ég bið þá menn sem slíku halda fram um rökin fyrir því að fækkun sela muni gefa þeim þessar niðurstöður. Látum svo vera. Þó að það liggi fyrir að ákveðnar tegundir sela geti verið lokahnýsill fyrir stóran hringorm, halda menn þá og hafa menn einhverja sönnun fyrir því að það samband sé línulegt, að það sé einfaldlega þannig að ef við höfum 100 þús. seli við landið og fækkum þeim ofan í 10 þús. hverfi 90% af hringormavandamálinu? Hafa menn einhver rök fyrir sér í þeim efnum að þetta samband sé svo einfalt? Nei, auðvitað ekki. Menn hafa ekki minnstu hugmynd um hvort slíkt línulegt samband er þarna á ferðinni. Það getur alveg eins verið líffræðilega séð og það er fullt eins líklegt að tiltölulega lítill fjöldi sela gæti þá sinnt því hlutverki hýsilsins sem hér er á ferðinni og það séu ýmsir aðrir þættir í hringrás og lífsferli ormanna sem geti fullt eins ráðið því hversu útbreiddir þeir eru og hversu mikill fjöldi er af þeim. Það hafa engin rök komið fram mér vitanlega um að þetta samband sé svona einfalt. Það eina sem menn hafa fyrir sér er að það liggur fyrir að selir geta verið lokahirslan fyrir stóran hringorm og hvalir þá fyrir lítinn hringorm.

Menn vita í fyrsta lagi ekki hvaða tegund það er af hringormi sem veldur aðallega vandamálinu í fiski. Það er ekki bara einn hringormur með ákveðnum greini, bara ein tegund, einn erkifjandi, heldur eru það 500 þúsund eða guð má vita hvað gífurlegur fjöldi það er af tegundum sem þarna er um að ræða. (HBl: 500 þúsund?) Ja, guð má vita hvað það er mikið, en það er gífurlegur fjöldi. Ég get kannske fundið það í vísindalegum upplýsingum, en það hefði verið nær að þetta kæmi fram í frv.

Það er líka mjög sérkennilegt að menn skuli ekki byrja á því að hefja rannsóknirnar og leggja áherslu á rannsóknirnar vegna þess að ef menn ætla sér í það verkefni að reyna að hafa á þessu einhvern hemil þurfa menn auðvitað að vita ýmislegt um hlutina. Slíkar rannsóknir mundu færa manni þá vitneskju hvernig væri best að taka á því verkefni að halda niðri hringormi. En með því að ana beint áfram í það að fara að skjóta sel án þess að kynna sér hið flókna samspil sem hér er á ferðinni fara menn nánast óvopnaðir út í þennan slag, gersamlega ónestaðir af þekkingu í þessa viðureign. Þess vegna eru það fáránleg vinnubrögð, herra forseti, ef mér leyfist að nota það orðbragð, að byrja ekki á því að afla sér þekkingar um þessi efni. Ég vitna einnig til þess sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði um þetta efni. Það er auðvitað margt sem þar kæmi til greina og þyrfti að skoða.

Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvers vegna þetta frv. er hér lagt fram enn á ný án þess þá að því fylgi einhverjar upplýsingar og einhver rökstuðningur um þessi efni. Ég varð satt best að segja forviða, herra forseti, þegar ég fékk frv. enn einu sinni í hendurnar jafnberstrípað og hingað til hefur verið. Og ekki fór nú mikið fyrir þekkingunni í framsöguræðu hæstv. ráðh. Mig minnir að hann hafi minnst eitthvað á að hann hafi haldið um þetta ræður hér áður. En það kom ekkert fram í þeim ræðum um þá fræðilegu og þekkingarlegu stöðu málsins sem er jafnbág og raun ber vitni. Það er því miður, herra forseti, allt of stutt síðan menn fóru að sinna þessum hlutum. Það er tæplega áratugur eða svo síðan eitthvað fór að miða í þessum rannsóknum, menn fóru yfirleitt að fjalla um þær á fræðilegan hátt, þegar fyrstu greinarnar birtast sem eitthvað kveður að frá því að Bjarni Sæmundsson var að skrifa um þessa hluti. Það er þegar komið er fram á síðasta áratug. Það er mjög stuttur tími til að afla vitneskju um þessi mál þegar það er gert af jafnmiklum vanefndum og raun ber vitni þessi ár sem síðan eru liðin.

Það er í raun og veru alveg ótrúlegt, þegar menn koma hér upp og kalla þá þm. sem ekki vilja gleypa þetta allt saman hrátt öllum illum nöfnum, að það skuli hafa liðið þrjú ár sem hafa farið til ónýtis í þessum efnum vegna þess að menn hafa keyrt þessa einstefnubraut. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef tiltölulega góða samvisku verandi í hópi þeirra þm. sem ekki eru tilbúnir til að láta frv. með þessum annmörkum rúlla beint í gegnum þingið.

Ég bendi á þrjósku þeirra sem standa hinum megin við. Ég bendi á hæstv. sjútvrh. og spyr hann í fullri einlægni: Telur hann ekki, ef hann lítur í eigin barm og hugsar málið, að hann hefði hugsanlega getað haldið svolítið skynsamlegar og betur á þessum málum og þá væri kannske árangur og uppskera meiri?

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu. Ég sé að sá hefðbundni fundatími okkar sem við ættum venjulega til fundahalda á miðvikudögum er nú liðinn. Ég ætla því ekki að tefja málið lengur að sinni.

Umr. frestað.