03.04.1986
Efri deild: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3431 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. 1. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. félmn., en það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur fjallað um málið á þremur fundum. Málið er viðamikið og augljóst að umfjöllun nefndarinnar um það er ekki tæmandi. Jafnframt er ljóst að frv. er að ýmsu leyti vanbúið og er þar helst að nefna að áform um aukna vald- og verkefnadreifingu á því stjórnunarsviði, sem það tekur til, eru að engu orðin og í reynd óljóst hvernig samstarfi sveitarfélaga og tilfærslu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga verður háttað. Að auki tekur frv. ekki til tekjustofna sveitarfélaga sem nauðsynlegt er að fjallað sé um samhliða þar sem tekjur sveitarfélaga eru ákvarðandi þáttur í verkefnum þeirra.

Í ljósi þessa og ofangreindra nefndarstarfa mun 1. minni hl. nefndarinnar sitja hjá við afgreiðslu málsins.“ Í raun er litlu við þetta nál. að bæta. Eins og fram kemur í álitinu hélt félmn. aðeins þrjá fundi um málið og hafði það alls til umfjöllunar í sex daga. Það gefur auga leið og þarf ekki að fjölyrða um það að slík nefndarstörf eru lítils nýt og mest til þess að sýnast þar sem um er að ræða viðamikið mál og frv. upp á yfir 100 greinar. Meðferð Ed. á þessu máli er því varla til annars en að fullnægja þeim formlegu ákvæðum þingskapa og stjórnarskrár að mál skulu tekin fyrir í báðum deildum þingsins. Kveður svo rammt að þessu að jafnvel augljósar orðalagsvitleysur í lagatexta frv. eru af meiri hl. nefndarinnar látnar standa óbreyttar því að allt skal undir lagt til að ná þessu frv. í gegnum það þing sem nú situr og gera að lögum, sama hvers lags orðalagsambögur og efnishringlandi er þar á ferðinni.

Við slíkar aðstæður er það vitaskuld að tala fyrir daufum eyrum að ræða þetta frv. efnislega, en ég vil samt freista þess að mæla hér fyrir brtt. á þskj. 720 sem ég flyt ásamt hv. 9. þm. Reykv. Haraldi Ólafssyni og hv. þm. Helga Seljan, Eiði Guðnasyni og Stefáni Benediktssyni. Brtt. þessi varðar fjölda fulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur. Brtt. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 11. gr. Á undan síðari málsl. fyrri mgr. komi nýr málsl. er orðist svo:

Þó skulu borgarfulltrúar í Reykjavík aldrei vera færri en þm. Reykjavíkur sbr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.“ Í 31. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að þm. Reykjavíkur skuli eigi vera færri en 18 miðað við núverandi íbúafjölda í Reykjavík. Það hlýtur að teljast í hæsta máta óeðlilegt fyrirkomulag að fulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur, sem eftir næstu kosningar verða 15 að óbreyttu, séu færri en þm. borgarinnar. Það gefur auga leið í þessum efnum að skylt er að gæta samræmis og því er hér lagt til að lágmarksfjöldi borgarfulltrúa verði færður til samræmis við fjölda þm. Reykjavíkur.

Að auki er á það að líta að heldur rýmri fjöldi borgarfulltrúa er ákaflega mikilvægur til að tryggja að sem flest sjónarmið borgarbúa fái notið sín við stjórn borgarinnar, til að tryggja rétt minni hlutans í raun, en eins og hv. þm. vita má mæla raunverulegt lýðræði með því hvernig réttur minni hlutans er tryggður hverju sinni.

Í Reykjavík búa nú nálægt 90 þús. manns og ljóst er að 15 manna borgarstjórn er allt of fámenn fyrir allan þann fjölda og þau margvíslegu sjónarmið sem finnast í slíkum 90 þús. manna hópi. Fámennisvald væri réttnefni á þessu fyrirkomulagi og ljóst að það hentar núverandi meiri hluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Slíku stjórnunarfyrirkomulagi er ég ekki meðmælt. Ég tel rétt og skylt að öll sjónarmið fái að heyrast þar sem ráðum er ráðið og því flyt ég ásamt öðrum hv. þm. þessa brtt. við 11. gr. frv. Ég vil biðja hv. þm. Sjálfstfl., sem ekki eiga fulltrúa á þessari till., að ræða svolítið við samvisku sína um lýðræði áður en gengið verður til atkvæðagreiðslu um hana.

Að lokum, herra forseti, vil ég ekki láta hjá líða að segja fáein orð um till. sem ég er meðflm. að. Hún er á þskj 710, en 1. flm. er hv. þm. Eiður Guðnason. Till. er þess efnis að þau atriði sem ganga verður frá fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar verði tekin út úr frv. og lögfest, þ.e. kjördagur og kosninga- og kjörgengisaldur, en frv. sjálft með öllum sínum göllum tekið til endurvinnslu og fært til betri vegar. Að svo komnu máli og eftir þann kattarþvott sem þetta mál hefur fengið í hv. Ed. er samþykkt þessarar till. að því er ég tel með því viturlegra sem hv. þingdeildarmenn geta gert í þessu máli öllu, a.m.k. ef menn vilja setja lög sem reynandi er að fara eftir.

Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið í bili.