03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

364. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. landbn. á þskj. 711. Afstaða minni hl. landbn. er sú að mæla með samþykkt þessa frv. með ákveðnum fyrirvörum og mun ég nú gera grein fyrir þeim helstu:

Það er ljóst, herra forseti, að fjárhagsstaða verulegs hluta bænda er afar slæm - eins og reyndar kom fram í máli hv. frsm. meiri hl. þegar hann undir lok ræðu sinnar sagði að staða bænda væri þannig að það hefði ekki verið jafnbrýnt og nú um langt árabil að létta greiðslubyrði þeirra - og er ég honum þar alveg sammála. M.a. af þeim sökum er eðlilegt að rætt sé nokkuð um stöðu Stofnlánadeildar landbúnaðarins og möguleika hennar til þess að grípa til þeirra ráðstafana sem óhjákvæmilegt og nauðsynlegt er að gera. Staða bænda er mjög misjöfn. Þó að verulegur hluti þeirra komist sæmilega af og beri ekki það þungan fjármagnskostnað að í venjulegu árferði og miðað við eðlilega framleiðslu ætti það að geta blessast, þá er alveg ljóst að umtalsverður hópur er í miklum erfiðleikum og þarf verulegra lagfæringa við. Þar eru einkum á ferðinni yngri bændur og aðrir þeir sem lagt hafa í mikla fjárfestingu og byggt upp á búum sínum undanfarin ár. Það má einnig nefna að þessu til viðbótar hefur stjórnarstefnan nú hin síðustu ár komið mjög harkalega niður á bændum ekki síður en öðrum launamönnum í landinu. Kjaraskerðingin sem slík gengur að sjálfsögðu aftur í skertum kauplið verðlagsgrundvallar og stefna hæstv. ríkisstj. í vaxtamálum hefur verið skuldugum bændum sérstaklega þung í skauti. Þá má ekki gleyma þeim erfiðleikum sem við er að glíma í markaðsmálum hefðbundinna búgreina sem aftur að verulegu leyti eru afleiðing af skertum kaupmætti almennings og lækkandi niðurgreiðslum í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Með þetta allt í huga er það ljóst, herra forseti, að gera þarf stórátak til að koma fjárhagsstöðu landbúnaðarins sem atvinnugreinar í eðlilegt horf. Breyta verður alveg um stefnu í vaxtamálum og veita þeim bændum, sem eiga í mestum erfiðleikum, löng og hagstæð lán í stað bráðabirgðaskuldbreytinga sem tíðkaðar hafa verið á undanförnum árum. Ég tel einnig að það sé óhjákvæmilegt að við slíkar aðgerðir sé tekið mið af félagslegum aðstæðum og stuðlað að því að jafna kjör innan stéttarinnar. Það er enginn vafi á því að eitt erfiðasta úrlausnarefnið varðandi allar aðgerðir að þessu leyti er það hversu misjöfn kjör bænda innan stéttarinnar eru.

Minni hlutinn hefur því fullan fyrirvara á um það að Stofnlánadeild landbúnaðarins geti ein og óstudd ráðið við það verkefni sem hér þarf að takast á við. Það er rétt að minna á í þessu sambandi, herra forseti, að þegar á þessu yfirstandandi þingi hefur verið velt yfir á herðar Stofnlánadeildarinnar umtalsverðum byrðum, og er ég hér að fjalla um þá afgreiðslu fjárlaga frá því í desember s.l. að velta forfalla- og afleysingaþjónustunni allri saman yfir á Stofnlánadeild, en það er óhjákvæmilegt að ræða það í samhengi við þetta mál. Ljóst er að þar eru lagðar byrðar á Stofnlánadeildina, verulegar og varanlegar byrðar. Menn verða að gera skýran greinarmun á því að þar er um hrein útgjöld að ræða. Þar er um að ræða hrein útgjöld frá ári til árs en ekki aukin lánsumsvif eins og hér er á ferðinni. Og það er grundvallarmunur á því þegar fjallað er um eiginfjárstöðu og stöðu Stofnlánadeildarinnar, annars vegar þar sem eru á ferðinni hrein og bein útgjöld eins og forfalla og afleysingaþjónustan er, og hins vegar yfirtaka á skuldum bænda og löngum lánum á móti.

Áætlað er að forfalla- og afleysingaþjónustan muni kosta á þessu ári ekki minna en 25 millj. kr. í beinum útgjöldum fyrir Stofnlánadeild. Ég lýsti þeirri skoðun minni í vetur að hér væri í raun og veru verið að fara aftan að hlutunum með því að flytja þetta yfir í Stofnlánadeild og það væru brigðir á því samkomulagi sem á sínum tíma var gert, eða þeirri tilhögun sem á sínum tíma um samdist, að forfalla- og afleysingaþjónustan yrði metin sem hluti af verðlagsgrundvellinum og bændur gæfu í raun eftir af kauplið sínum á móti þeim fjárframlögum sem kæmu úr ríkissjóði til að standa undir forfalla- og afleysingaþjónustunni. Nú er þessu í raun velt aftur yfir á bændur sjálfa og skal fjármagnast af þeim gjöldum sem þeir greiða til Stofnlánadeildar. Til þess að gera mönnum ljóst hvaða fjármunir hér eru á ferðinni þá mun láta mjög nærri að þessar 25 millj. kr. sem þarna færast sem bein útgjöld á Stofnlánadeild dygðu til að lækka vexti á öllum verðtryggðum lánum Stofnlánadeildar um 2%. Og þá geta menn gert sér það í hugarlund að að þessu marki er sem sagt skert geta Stofnlánadeildarinnar til að gera annað tveggja, lækka vexti eða lengja lán viðskiptamanna sinna.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þennan punkt, herra forseti, og vekja á því athygli, þegar hér er verið að ræða um ráðstafanir sem Stofnlánadeild þurfi að gera til að létta greiðslubyrði af bændum, að þá er óhjákvæmilegt að hafa í huga þá ráðstöfun hæstv. ríkisstj. frá s.l. vetri að skerða fjárhag deildarinnar sem þessu nemur.

Ég vil einnig taka nokkurn vara við þeim ummælum og þeim fullyrðingum sem koma fram, bæði hér í framsöguræðu fyrir nál. meiri hl. og einnig í frv. sjálfu, að verulegt svigrúm sé að skapast innan Stofnlánadeildar landbúnaðarins til þess að taka á sig kostnað af lengingu lána eða vaxtaniðurgreiðslum ef því væri að skipta. Ég bendi í fyrsta lagi á það, herra forseti, að tekjur Stofnlánadeildar eru hlutfall af veltu í landbúnaðinum og það gefur því auga leið að á tímum samdráttar er þar um minnkandi tekjustofn að ræða. Ég spurði forstöðumann Stofnlándeildar eftir því hvort gerð hefði verið á því könnun hversu mikil sú skerðing gæti orðið, ef ákveðnar spár um samdrátt í framleiðslu landbúnaðarins næðu fram að ganga eða rættust, og hann svaraði því til að engar óyggjandi niðurstöður lægju fyrir um það. En þó mega allir glöggir menn ljóst sjá að á tímum samdráttar er um minnkandi tekjur að ræða.

Ég vil einnig koma þeirri skoðun minni á framfæri að ég tel það mjög varhugavert frá sjónarhóli landbúnaðarins sem atvinnuvegar og yfirleitt frá sjónarhóli nokkurs atvinnuvegar að bjóða heim þeirri hættu að algjör stöðnun ríki um árabil í endurnýjun og uppbyggingu, eðlilegri endurnýjun og eðlilegu viðhaldi atvinnutækja viðkomandi greinar. Það eru aðstæður sem engum atvinnuvegi er búandi við til langs tíma litið. Landbúnaður jafnt sem aðrar atvinnugreinar verður að geta endurnýjað sín framleiðslutæki og nýtt sér kosti þróunar og tækni eftir því sem nokkur kostur er. Út af fyrir sig má segja að þörfin sé kannske óvíða, ef nokkurs staðar, meiri heldur en einmitt í landbúnaðinum að nýta alla möguleika sem gefast til þess að halda niðri framleiðslukostnaði og þar af leiðandi er mjög varhugavert að mínu mati að gera því skóna að hefðbundnar búgreinar geti nánast neitað sér um alla fjárfestingu af þessu tagi um langt árabil og skapað þannig svigrúm, stórfellt svigrúm, eins og mér virðist gefið í skyn með ákveðnum hætti, bæði í athugasemdum við þetta frv. og í umræðunum um það.

Það liggur einnig fyrir að mikill þrýstingur er á Stofnlánadeild að taka þátt í uppbyggingu í nýjum búgreinum og það er mjög brýnt, svo fremi sem menn hafi trú á því að þar sé verulega hægt að sækja fram þá er það mjög brýnt að Stofnlánadeild geti lagt sitt af mörkum í þeirri uppbyggingu, og það hlýtur að hafa þá áhrif á getu hennar til þess að lengja lán viðskiptavina hennar sem fyrir eru. Hins vegar er það svo, herra forseti, að það er fullkomlega eðlilegt, og í raun hin eina eðlilega tilhögun, að skuldbreytingalán séu til heimilis á sama stað, í sömu stofnun og rekstrar- eða fjárfestingarlán þessarar atvinnugreinar. Því er ég hlynntur því fyrirkomulagi að þessi breyting eigi sér stað en hef á þessu þá fyrirvara, sem ég hef hér rakið, um það að Stofnlánadeildinni verði gert það kleift að sinna þessu hlutverki.

Það er kafli út af fyrir sig, herra forseti, að Stofnlánadeild landbúnaðarins skuli vera komin í þá stöðu að hún búi nú við neikvæðan gengismun upp á tugi milljóna króna. Menn hafa verið blessunarlega lausir við það í þessari atvinnugrein að standa í æfingum með gengismun og það hefur yfirleitt tilheyrt fremur öðrum atvinnugreinum, en nú er það svo að Stofnlánadeildin er með verulegt óhagræði af því að hafa löng erlend lán bundin gjaldmiðlum sem hafa ólíka viðmiðun þeirri sem útlánin byggja á. Þetta er mjög óeðlilegt fyrirkomulag og ég held að fyllilega sé tímabært að endurskoða það og reyna að tryggja að þarna skapist ekki misræmi. Auðvitað væri æskilegast að þarna væru engin erlend lán á ferðinni. Hér er ekki um aðstæður að ræða hliðstæðar sjávarútveginum þar sem hér er í raun og veru fyrst og fremst um framleiðslu fyrir innanlandsmarkað að ræða og atvinnugrein sem byggir á innanlands- og og landsframleiðslu. En það er staðreynd engu að síður að Stofnlánadeildin hefur þarna tekið erlent lán og hefur goldið fyrir þetta gengismisræmi á undanförnu ári að verulegu leyti.

Ég held, herra forseti, að það hafi ekki mikið upp á sig að ræða í sjálfu sér lengur um fjárhagsstöðu þeirra bænda sem hér er fyrst og fremst verið að tala um né atvinnugreinarinnar í heild sinni. Auðvitað mætti margt um það segja og út af fyrir sig hefur verið allt of hljótt um þann hlut málsins hér á hinu háa Alþingi. Mér er verulega til efs að menn geri sér allir, hv. þm., fulla grein fyrir því hversu gífurlega alvarlegir hlutir þar eru á ferð í mörgum byggðarlögum og hversu hættulega nærri því er komið að um meiri háttar gjaldþrot verulegs hluta bændastéttarinnar sé að ræða.

Það hefur verið lögð í það nokkur vinna að undanförnu að kanna fjárhag þeirra sem verst standa og nokkrar úrbætur hafa átt sér stað, það skal viðurkennt, og lán hafa verið veitt til 15 ára til þeirra bænda sem í mestum greiðsluerfiðleikum eru. Þó standa þar út af nokkrir þeir sem verst eru staddir. Það er einnig ljóst að þær ráðstafanir, sem gripið hefur verið til á undanförnum árum og jafnvel enn þann dag í dag, eru engan veginn fullnægjandi og í raun og veru hefndargjöf því að lánstími til 10 til 15 ára í þessum efnum er auðvitað ófullnægjandi með öllu. Það er í engu samræmi við vandamálið að veita lán til svo skamms tíma. Það er heldur ekki í samræmi við eðlilegan afskriftatíma þeirra mannvirkja sem í flestum tilfellum er verið að afskrifa með viðkomandi lántökum.

Herra forseti. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur á undanförnum árum hafið að lána til uppbyggingar í loðdýrarækt nokkra fjármuni, en enn sem komið er hefur ekki verið um nein útlán að ræða til að mynda til fiskeldis. Ég tel einnig að menn þurfi að minnast þess í þessu samhengi að Stofnlánadeildin þarf að taka um það ákvörðun fyrr eða síðar eða forstöðumenn hennar hvort hún ætlar sér einhverja þátttöku til að mynda í uppbyggingu þessarar atvinnugreinar, hvort menn vilja að litið sé á þetta að einhverju leyti sem landbúnað eða atvinnuveg einstaklinga í strjálbýlinu sem eðlilegt sé að Stofnlánadeildin láni til. Ég hef út af fyrir sig ástæðu til að ætla að forstöðumenn hennar nú vildu gjarnan veita til þessa verkefnis nokkru fjármagni. Mér sýnist ekki fjarri lagi að það væri þörf fyrir 20-40 millj. kr. á ári til að lána til smærri verkefna á þessu sviði úti í sveitum. Þá er þar kominn enn einn útgjaldaliður sem hafa þarf í huga þegar reynt er að meta stöðu og möguleika Stofnlánadeildarinnar til að axla það verkefni sem hér er verið að færa henni á herðar.

En með þeim fyrirvörum sem ég hef nú hér gert grein fyrir og öðrum athugasemdum er það niðurstaða minni hl. landbn. að mæla með samþykkt þessa frv., herra forseti.

Umr. (atkvgr.) frestað.