03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

368. mál, selveiðar við Ísland

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda uppi langri tölu þó að ég verði að segja að ærin ástæða væri til. Satt að segja, svo góðan vinskap og mikið álit sem ég hef á hv. 5. þm. Austurl. og hef yfirleitt reynt hann að góðu einu, liggur við að það gangi yfir mig hvað mér virðist dularfull þau vísindi sem hann hefur að vísu ekki skilgreint og ég er ekki krefjast þess að hann geri hér og nú, en þetta er mystískt eins og mundi vera sagt á máli fræðimanna.

Það segir mér einn gagnmerkasti og fróðasti maður um íslenskan sjávarútveg sem ég þekki, og býst ég við þó víðar væri leitað, - hann hefur að vísu ekki mikla nafnbót, en bæði ég og ýmsir þeir sem við samninga í sjávarútvegi fást fá yfirleitt upplýsingar hjá þessum manni, - og hann hefur þetta eftir fræðimönnum, að tegundir hringorma við Ísland séu um 200-300. Þar af er svokallaður selormur, sem latneskt nafn er á og hv. 5. þm. Austurl. gæti komið með, og tímgast fyrst og fremst í sel, 95%. Ef rökstutt er með yfirgnæfandi líkum og meiri hluta að 95% af þessum vanda er hægt að rekja til selsins og að á þeim svæðum sem selurinn heldur sig fyrst og fremst á er hringormur áberandi meiri eru það þessi 95% sem skipta máli. Hitt er ákaflega mikil vísindagrein, um þessi 5%. Þetta tímgast í sel.

Fjarstaddur hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sá ljúfi maður, hélt ákaflega skemmtilega ræðu í gær. Ég hef sjaldan heyrt öllu áhrifameiri ræðu í þingsölum. Þegar hann var að ræða um hringorminn og aðgerðir gegn hringormi var eins og 6. floti Bandaríkjanna mundi sigla inn Breiðafjörð spúandi eldi og flugskeytum í allar áttir. Ég kannast ekki við þessar lýsingar, sem maðurinn var að tala um, á Breiðafirði. Mér er hins vegar kunnugt um mann, ættaðan úr Austurlandskjördæmi og búsettan þar, sem tók að sér að eyða sel á Breiðafirði með snyrtilegri byssu og hafði hátt í aðra milljón króna tekjur fyrir hlut að máli. Ég held að enginn fugl hafi fælst. Þetta var maður sem kunni til verka. Það er enginn að tala um að það sé eins og 6. floti Bandaríkjanna sé þarna.

Ég skal að vísu viðurkenna að það hafa verið hertar hreinlætiskröfur og það hafa verið hertar kröfur í sambandi við magn hringorma. En flettum t.d. upp í tímariti eins og Ægi þar sem Halldór Bernódus skrifar.

Hann sýnir fram á að 1963 var þorskur veiddur á grunnslóð með 1 til 1,5 orma á kg, en þorskur veiddur á djúpslóð með 0,5 orma. Árið 1983 eru þetta orðnir 7 ormar per kg, þrír ormar á grunnslóð. Línu- og handfærafiskur er kominn með 8,80 orma á kg. Og 1985 er línu- og handfæraþorskur, þ.e. fiskur af grunnslóð, með 9,65 orma á kg. Þetta er unnið upp úr skýrslum frá nokkrum frystihúsum. Þetta er áberandi meira á Breiðafirði, í Ísafjarðardjúpi, hér á suðausturströndinni, jafnvel Húnaflóa, þar sem selur er.

Ég eftirlæt mönnum að deila um þessi 5%, en ég held að það fari ekkert milli mála að jafnvel þó við tökum tillit til þess að þarna hafi verið gerðar stífari kröfur má nefna þess dæmi að það eru teknar tvær vikur á Vestfjörðum á grunnslóð og út koma 20,48 ormar á kíló. Nefndi ég ekki fyrst 1,5? Við skulum segja að kröfur hafi tvöfaldast eða eigum við að segja að þær hafi þrefaldast? Hvað kemur út úr þessu?

Það veit hver maður, sem við þetta hefur starfað eða þessu hefur kynnst, að þarna er ekki einungis gífurlegur kostnaður heldur háir þetta gífurlega afköstum og verður oft þess valdandi að enn þá meiri vandi er að fá fólk til þessara starfa vegna þess að það þarf fleira fólk. Ég sagði að það væri hægt, ef þetta gengi allt í vinnulaun, að auka vinnulaun um allt að þriðjung, við skulum segja fjórðung ef hægt væri að ná um betra samkomulagi. Þá er ótalið að dýrustu og vandlátustu markaðirnir eru í hættu af þessum ástæðum. Þeir eru í hættu af þessum ástæðum. Það er hægt að tína upp dæmin utan endi þar sem heilu fyrirtækin, hótelin, hafa hætt viðskiptum af þessum ástæðum. Hvernig í ósköpunum - þó svo ég geti tekið undir það að það hefði verið ákaflega eðlilegt og æskilegt að þetta frv. hafi komið fram fyrr, en það er bara margbúið að koma hér fyrir. Menn koma hér með hvern fyrirsláttinn á fætur öðrum, að vísu af sitt hvorum ástæðum, einn er að hugsa um að ná kannske þremur atkvæðum í ákveðinni sveit, annar er með vísindaleg tilþrif og segir að þetta sé ekki vísindalega sannað. Nú Steingrímur, ég skal ljúka máli mínu. Hér eru ekki viðstaddir hv. þm. Pálmi Jónsson og fleiri sem tóku hér til máls í gær og gaman hefði verið að spjalla við. Ég held að það styrki ekki stöðu landbúnaðar í landinu að fyrir 30-80 bændur sé haldið af það miklum einstrengingshætti á þessum málum að þeir fái þá atvinnugrein á móti sér sem 70% af útflutningsframleiðslunni byggist á.

Aðeins að endingu og af því að þm. Suðurl., Garðar Sigurðsson, gengur fram hjá, þá er bara best að bregða sér í léttara tal í lokin. Hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði að ekki væri vísindalega sannað að selurinn væri orsök fyrir þessum hringormi. Ja, það má teygja lengi. Hann tímgast fyrst og fremst í sel, 95% af þessum hringormi. Og þar sem selur heldur sig mest, þar er hringormurinn, langsamlega mest af honum. Segja má að það sé ekki vísindalega sannað. Það mætti segja við jafnindælan og ágætan mann og hv. þm. að það sé ekki vísindalega sannað að hann sé ágætur maður og það mætti meira að segja spyrja hann að því hvort það sé vísindalega sannað að hann sé maður. Liggja nokkrar vísindalegar niðurstöður fyrir um það? Hvað á svona orðhengilsháttur að þýða? Það liggur hér fyrir að grunnatvinnuvegur þjóðarinnar á í erfiðleikum, verulegum erfiðleikum út af þessu. Þá eiga menn að bregðast við því en ekki að vera með orðhengilshátt og útúrsnúninga og sveipa um sig dulúð og vísindum sem þeir hafa ekki vald á.