03.04.1986
Neðri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3460 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

368. mál, selveiðar við Ísland

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð af gefnu tilefni, af því að ummæli mín hér í umræðunni fyrr urðu tilefni til útlegginga. Þá er nú sennilega best að rifja það upp hvernig ég orðaði hlutina eða a.m.k. hvernig ég vildi þá sagt hafa.

Ég hygg að ég hafi verið að fjalla um það að það væri ekki vísindalega sannað hvernig sambandinu væri háttað milli fjölda sela og útbreiðslu hringorms. Ég kom því einmitt að hér í umræðunni, og vil gjarnan ítreka það, að eitt af því fáa sem fyrir liggur, vísindalega, eða bara almennt þekkingarfræðilega í þessu máli, er jú það að selur er lokahýsill fyrir eina alveg tiltekna tegund hringorms, sem ég kallaði stóra-hringorm. Það getur vel verið að það sé réttara að nefna hann selorm, alla vega er þetta einhver þráðormur. Það er alveg ljóst. Þetta sem sagt vita menn og það er alveg rétt að selurinn er þarna lokahýsill fyrir þessa tilteknu tegund af þráðormi. Einnig er vitað, svo dæmi sé tekið, að ákveðnar tegundir hvala eru lokahýslar fyrir aðrar tegundir af þráðormi, litla-hringorm o.s.frv. (Gripið fram í: Það eru 5%.) En síðan er það í raun og veru það sem mestu máli skiptir, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að vita hvernig þessu sambandi er háttað. Ég spurði að því hér í umræðunni, hvort menn teldu óhætt að gefa sér það að þarna væri um línulegt samband að ræða. Ég hefði gaman af því að heyra einu sinni álit hæstv. sjútvrh., t.d. á þessu tiltekna atriði sem skiptir auðvitað mjög miklu máli.

Svo ég taki dæmi til að skýra mál mitt, þá getum við sagt að við hefðum kringum landið 100 000 seli og ef við gæfum okkur að það væri nokkurn veginn línulegt samband milli selafjöldans og útbreiðslu hringormavandans, þá gætum við sagt að með því að fækka selunum niður í 10 000 hefðum við losnað við 90% af hringormavandanum. Ef þetta væri nú tilfellið þá væri málið einfalt. Þá væri þarna um mjög einfalt samband að ræða og menn gætu bara hreinlega gefið sér það hversu mikið þyrfti að fækka selnum til þess að ná tilteknum árangri í glímunni við hringorminn. En þetta liggur bara því miður ekki fyrir. Alls ekki. Þvert á móti renna menn í raun og veru alveg blint í sjóinn um það hvernig sambandinu þarna á milli er háttað. Þið vitið það t.d., hv. þm., sem eitthvað hafið kynnt ykkur lífsferli laxins og setningu hrognafisks í laxveiðiár, að það getur stundum skilað meiri árangri fyrir viðkomu laxastofnsins í viðkomandi á að nógu fáir fiskar hrygni. Það er ekki spurning um fjölda þar heldur um lífsskilyrði þeirra einstaklinga sem upp komast. Og þetta getur alveg eins verið niðurstaðan í þessum tilfellum. Menn geta ekki gefið sér að náttúran sé svona einföld eins og menn gjarnan vildu hafa hana. Það væri voðalega gaman að hlutirnir yfirleitt væru svona einfaldir en þeir eru það bara ekki, í fæstum tilfellum. Og það er skaðlegt að leyfa sér of miklar einfaldanir ef menn vilja byggja skoðun sína á traustum þekkingarfræðilegum grunni.

Það var þetta atriði, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem ég held að ég hafi talað um að væri engan veginn vísindalega sannað. Það er heldur ekki vísindalega sannað að sá sem hér talar sé maður. Alla vega ekki hvað varðar þetta tiltekna eintak. Kynkvíslin sem ég tilheyri, Íslendingar, hún er yfirleitt talin til hins viti borna manns og ég hef nú talið mig vera einn úr þessum hópi - og leyfi mér að halda því fram þangað til annað er sannað. (GJG: Ég tel það líka.) Nú, þá bendir allt til þess að við séum sammála, hv. þm., og er gott.

Eitt vil ég svo taka fram að lokum og það finnst mér einmitt vera alvarlegt en það er að hvergi hefur verið sannað að útbreiðsla sela hefði marktæk áhrif á tíðni hringorma. Ég bið menn að lesa einustu vísindalegu ritgerðina sem gert hefur úttekt á akkúrat þessu tiltekna atriði. Annar af höfundum hennar er enginn annar en hv. þm. Björn Dagbjartsson. Í þeirri tilteknu grein, þeirri tilteknu umfjöllun, stendur að mismunur á hringormatíðni í fiski t.a.m. á Breiðafirði, þar sem selur er nú gjarnan útbreiddastur, sé ekki marktækur. „Ekki marktækur.“ Það hefur ekki tekist að sýna fram á að það væri marktækt meiri hringormur í fiski á slóðum þar sem hvað mest er um sel. Þetta liggur fyrir. Menn geta haft sínar skoðanir á því að þetta sé svona engu að síður. En ég hef hvergi komist yfir könnun eða vísindalega úttekt þar sem tekist hefði að sýna fram á marktækan mun. Í þessari grein, sem ég vitna hér í og Björn Dagbjartsson er annar af höfundum að, kom að vísu út að það væri lítið eitt meira af hringormi að breyttu breytanda í fiski þarna á Breiðafirði en það var innan skekkjumarka í könnuninni. (Gripið fram í: Það segir bara ekkert.) Það var innan óvissumarka. (Gripið fram í: Það segir bara ekkert. Fiskurinn syndir nefnilega.) Menn geta túlkað þær niðurstöður alveg endalaust en þetta var sem sagt niðurstaða þessara vísindamanna í þessari vinnu og þetta verða menn að hafa í huga. Það þýðir ekkert að horfa fram hjá því að svona standa menn alla vegana þekkingarfræðilega enn þá, hvað þetta tiltekna efni varðar.

Að lokum, herra forseti. Mér finnst það í raun og veru mjög skrýtið og ég skil það ekki - ég verð að segja það alveg eins og er að ég bara skil það ekki - að menn skuli ekki reyna að leggja í þessa glímu við hringorminn með sem allra mestan þekkingarlegan forða á bak við sig, vopnaðir allri þeirri þekkingu sem hægt er að heyja sér. Því það hlýtur að vera forsenda þess að við náum árangri. Og í guðs bænum tölum ekki hér eins og það sé einhver skoðanamunur uppi um það á Alþingi að æskilegt væri að fækka hringormi. Hverjum dettur í hug að halda öðru fram en því að hver einasti þm. og hver einasti Íslendingur, ef því er að skipta, vilji losna við þetta? Auðvitað hljóta allir að vera sammála um að það er þjóðarhagur - ef menn koma sér niður á þá leið sem dugar til þess og ef hún er þá yfirleitt til, ef það er yfirleitt í okkar valdi að ráða mjög miklu um þetta. Einhvern veginn hefur þeim fiski, sem nú er að flykkjast á miðin og veiðist í stórum stíl, tekist að losna að mestu leyti við hringorm. Göngufiskurinn, sem núna fyllir bátana og jafnvel tvífyllir þá á sama deginum, er yfirleitt laus við hringorm. Þær fréttir eru a.m.k. færðar manni af sumum verstöðum núna að það sé að veiðast boldungsfiskur og hann sé tiltölulega alveg laus við hringorm. - Jæja, menn geta hrist þá höfuðið eins og þeir vilja út af þessu, en þetta var verið að ræða hér niðri í kaffistofunni áðan og yfirleitt eru það hin mestu vísindi sem þar eru rædd. Fróðir menn höfðu fréttir úr sínum annexíum um það að svona væri þetta.

Herra forseti. Fáfræðin og þekkingarskorturinn er einn allra mesti glæpur hvers tíma. Næst á eftir því að hafa lýði fátæka þá er það að hafa þá þekkingarlausa sem er glæpur. Þetta segir Halldór Laxness og ég tek undir það með honum. Ég held að það eigi alveg eins við hér í þessu efni að fáfræðin sé einn mikill bölvaldur. Þess vegna er það ámælisvert að menn skuli hafa látið hér líða ár á ár ofan í pexi um hluti sem eru kannske ekki svo ýkja mikilvægir, ég get alveg tekið undir það, án þess að nota þann tíma til að afla allrar tiltækrar vitneskju um það hvernig væri best að standa að aðgerðum í þessu máli. Fyrst og fremst átel ég það hvernig farið hefur verið með þann tíma, sem hér hefur liðið, auðvitað á hv. Alþingi eins og annars staðar undir sólinni.