07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Ég veit ekki hvort maður á að dæsa eða fórna höndum til himins yfir hugmyndaflugi manna til þess að komast yfir aur eða réttara sagt til að koma á einhvern hátt í veg fyrir það að fólk geti notið þeirrar litlu hagsældar sem hugsanlega hlýst af því að eiga þess kost að kaupa ódýrar innfluttar landbúnaðarvörur. Hvort einhverjar aðrar þjóðir kjósa að greiða niður sína landbúnaðarframleiðslu er þeirra mál. Það er ekki okkar mál. Aftur á móti, ef við getum átt þess kost að kaupa þessa sömu niðurgreiddu vöru á miklu lægra verði en við getum framleitt hana fyrir hérlendis, skil ég ekki hvers vegna íslenskir neytendur mega ekki eiga þess kost. Hvers vegna í ósköpunum þarf að koma í veg fyrir að þeir geti það? Verðstýring með þessum hætti, sem hérna er verið að leggja til, er mér algerlega á móti skapi. Ég tel að hún gangi gersamlega gegn hagsmunum neytenda í þessu landi og vil þess vegna fyrir mitt leyti lýsa yfir algerri andstöðu minni við þetta frv. og mótmæla stjórnvaldsathöfnum af þessu tagi.