07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það virðist vera kjarni þessa máls að í þeim tilvikum þegar flutt er til landsins erlend landbúnaðarframleiðsla, sem lækkuð hefur verið verulega í verði áður en hún er flutt hingað heim vegna sérstakra aðstæðna úti í löndum, sé heimilt að leggja toll á þennan innflutning til varnar íslenskri framleiðslu. Það er sem sagt verndartollur sem hér er um að ræða. Þannig skil ég þau orð í athugasemdum við frv. þegar segir að eigi að reyna að tryggja nægilegt vöruframboð í framtíðinni. Auðvitað er augljóst mál að miklar verðsveiflur á erlendri framleiðslu, sem flutt er til landsins, gætu hreinlega gengið af innlendri framleiðslu dauðri og því er nauðsynlegt að tryggja ákveðið jafnvægi í verði innfluttrar vöru til að koma í veg fyrir að innlend framleiðsla verði fyrir óbætanlegu tjóni. Þetta held ég að sé kjarni málsins og ekki kannske ástæða til að stökkva upp á nef sér þótt ráðstafanir af þessu tagi séu gerðar.

Við verðum að horfast í augu við að erlendar landbúnaðarvörur lúta dálítið öðrum lögmálum á markaði en önnur framleiðsla. Þar gætir verulegra verðsveiflna sem ekki stafa af markaðsástæðum, ekki eiga rót sína í raunverulegri kostnaðarhlutdeild vörunnar, þ.e. hvað kostar að framleiða hana, heldur stafar af ákvörðunum stjórnvalda sem þurfa að losna við umframbirgðir og greiða því niður landbúnaðarvörur í stórum stíl. Þetta er hægt að gera í sambandi við landbúnaðarvörur, en þetta verður hins vegar tæpast gert á öðrum sviðum sambærilegum vegna þess að samningar um Efnahagsbandalag og EFTA hindra það. Þjóðirnar í Evrópu eru miklu frjálsari að búa til gerviverð á landbúnaðarvörur en á aðrar vörur og þar af leiðandi verðum við bersýnilega að bregðast við með dálítið öðrum hætti þegar um er að ræða samkeppni af þessu tagi en ef um væri að ræða venjulega landbúnaðarframleiðslu. Þetta finnst mér allt vera rök fyrir því að ráðstafanir af þessu tagi séu ekki alveg út í bláinn og að sjálfsagt sé að skoða efni þessa frv. með jákvæðu hugarfari því að það er áreiðanlega sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna, bæði framleiðenda og neytenda, að íslensk framleiðsla leggist ekki niður af tilviljunarkenndum ástæðum á erlendum mörkuðum.

Ég vil taka það fram að ég hef verið hlynntur því að reynt yrði að greiða fyrir auknu framboði á grænmeti hér á landi. Ég held að það sé afar þýðingarmikið fyrir heilbrigði landsmanna að þeir eigi kost á fjölbreyttu úrvali af grænmeti allan ársins hring. Ég hlýt að viðurkenna að það hefur oft nokkuð skort á að svo væri. Þetta hefur verið að þróast til hins betra í seinni tíð og ég fagna því mjög. Ég held að það hafi verið nauðsyn að losa þarna um þannig að hægt væri að auka fjölbreytni í grænmetisframboði á innlendum markaði. En ég er alfarið á móti því að innflutt samkeppni, sem í mörgum tilvikum er í raun og veru mjög óeðlileg og óheiðarleg vegna þess að hún byggir á stórfelldum, kannske tímabundnum niðurgreiðslum, sé látin eyðileggja íslenska grænmetisframleiðslu. Við verðum svo sannarlega að vera þar á varðbergi. Því endurtek ég að mér finnst sjálfsagt að velta fyrir sér efni þessa frv, með jákvæðu hugarfari og afla upplýsinga um það í nefnd enda þótt ég áskilji mér að sjálfsögðu allan rétt til að móta afstöðu mína til þess að nánar athuguðu máli.