07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3474 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Jón Magnússon:

Virðulegi forseti. Ágætu þingdeildarmenn. Þar sem ég tók sæti á Alþingi í forföllum Alberts Guðmundssonar núna rétt áðan hef ég að sjálfsögðu haft ákaflega takmarkaðan tíma til að kynna mér efni þessa frv., en þetta er út af fyrir sig atriði sem ekki er nýtt af nálinni né þau rök, sem færð eru fram hér, að með tilliti til erlendra niðurgreiðslna sé afsakanlegt að leggja sérstakan aukaskatt eða aukatolla á ákveðnar tegundir af innfluttum landbúnaðarvörum. Ég hygg að ef við ætluðum að fylgja þessu varðandi innflutning almennt gæti hið háa Alþingi setið eingöngu yfir því verkefni að setja lög varðandi þau atriði. Mér finnst mjög eðlilegt að það sé litið á alla atvinnustarfsemi með sama hætti, hvort sem hún heitir búvöruframleiðsla, iðnaðarframleiðsla eða sjávarútvegur. Hér er á ferðinni enn eitt dæmið um að það á að setja sérreglur fyrir búvöruframleiðnina. Og hvað þýða í raun þessar sérreglur? Þær þýða í raun að verðlag til neytenda hækkar. Það er hægt að halda uppi óarðbærri framleiðslu.

Það var sagt áðan í umræðunni að það bæri að tryggja að íslensk framleiðsla leggist ekki niður. Að sjálfsögðu ber að standa vörð um að íslensk framleiðsla leggist ekki niður svo fremi það sé nokkurt vit að halda framleiðslunni áfram. En ef framleiðslan er með þeim hætti að það sé til verulegs kostnaðarauka fyrir þorra fólks að kaupa framleiðsluna en ef væri um innfluttar vörur að ræða, arðsemin er engin, jafnvel tap á rekstrinum, þá á að sjálfsögðu að leggja framleiðsluna niður.

Í athugasemdum við frv. þetta er sérstaklega vikið að vissum tegundum búvara, þ.e. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Svo vill til varðandi niðurgreiðslu á búvörum í Efnahagsbandalagslöndunum og í Bandaríkjunum að þær búvörur sem helst eru niðurgreiddar eru mjólk, kjöt og fóður til þessarar framleiðslu. Aftur á móti eru grænmeti og garðávextir óvíða niðurgreidd og mun minna, þar sem það er gert, en hinar vörutegundirnar. Þetta verður að hafa í huga þegar hér er fjallað um þetta mál.

Í raun sýnist mér að hér sé verið að leggja til mjög óeðlilega skattheimtu sem leggjast eigi beint á neytendur til að reyna að halda uppi óarðbærum atvinnurekstri. Þess vegna get ég ekki annað en greitt atkvæði gegn þessu frv.