07.04.1986
Efri deild: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (3118)

342. mál, opinberar framkvæmdir

Flm. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Á þskj. 626 mæli ég fyrir frv. til l. um breytingar á lögum um opinberar framkvæmdir, nr. 63 frá 12. maí 1970. Frv. er í tveim greinum.

1. gr. hljóðar þannig, með leyfi frú forseta:

„Við 13. gr. laganna bætist ný mgr. er hljóðar svo: Útboð opinberra framkvæmda, þar sem gert er ráð fyrir breytanlegu verði, skulu gerð á grundvelli viðauka við „almenna skilmála um sölu og uppsetningu á tækja og vélbúnaði til innflutnings og útflutnings, nr. 188A“ sem samdir voru á vegum efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í mars 1957“.

Grg. með frv. er stutt og liggja til þess þær orsakir að ég hef flutt annað frv. um almennar reglur um högun framkvæmda, opinberra og ekki opinberra, sem lúti sömu skilyrðum og getið er um í viðauka við bókun 188A eins og kallað er. Hinar raunverulegu ástæður fyrir flutningi þessa frv. eru ekki mjög flóknar, en að mínu viti í raun og veru fullnægjandi til þess að frv. sé ekki hið einasta afgreitt hratt heldur líka samþykkt. Með því að nota þær viðmiðanir við ákvarðanir á verðbreytingum sem hér er verið að ræða um yrðu verðbótagreiðslur opinberra aðila minni en þær eru í dag. Það eitt ætti að nægja til þess að almennur vilji væri fyrir samþykkt þessa frv. því að með því er dregið beint úr útgjöldum opinberra aðila.

Að auki eykur frv. sem þetta eða skilyrði þau sem í því felast enn fremur ábyrgð verktaka í viðskiptum við hið opinbera og það eykur líka yfirsýn manna yfir verð og afdrif eigin fjár í verksamningum hins opinbera.

Að lokinni þessari umræðu, frú forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og til fjh.- og viðskn.