04.11.1985
Neðri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

26. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Á síðasta Alþingi var lagt fram frv. um breytingu á lögum um skipti á dánarbúum og félagsbúum. Flm. ásamt mér voru hv. þm. Guðmundur Einarsson, Guðrún Helgadóttir og Gunnar G. Schram.

Frv. þetta kom seint fram á síðasta þingi og náði ekki fram að ganga. Allshn. Nd. hafði frv. til meðferðar og barst nefndinni umsögn frá borgarfógetaembættinu um frv., en efni þess er að tryggja réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð að því er snertir fjármálauppgjör við sambúðarslit.

Tilefni þess er að margsinnis hefur komið fram mikið misrétti við slíkt uppgjör og oft risið upp vandasöm mál sem mörg ár hefur tekið að leysa vegna þess að alla lagavernd vantar við slit á óvígðri sambúð.

Þegar frv. var lagt fram á síðasta Alþingi var í frvgr. kveðið á um að heimila skiptarétti að skipta búi við slit á óvígðri sambúð. Ef sambúðarfólk verður ekki á eitt sátt um skiptin getur hvort um sig krafist þess að skiptaréttur fjalli um fjárskipti þeirra. Einnig kom fram í frvgr. á síðasta þingi að skiptarétti beri við skiptin að hafa hliðsjón af fjárhag aðila, hve lengi sambúð hefur staðið og öðru sem varðar hag aðila, m.a. framlagi hvors um sig til sameiginlegs heimilis á sambúðartíma með vinnu, fé til framfærslu eða á annan hátt.

Í umsögn borgarfógetaembættisins á síðasta Alþingi, sem undirskrifuð var af Ragnari Hall borgarfógeta, er gerð athugasemd við frvgr. sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta. Hún hljóðar svo:

„Lög nr. 3/1878, um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., hafa nánast eingöngu að geyma verklagsreglur um skipti á þeim búum er undir lögin falla. Efnisreglur, þ.e. reglur um efnislegan rétt þeirra sem í hlut eiga, eru ekki settar þar fram. Slíkar efnisreglur, sem svara til verksviðs þess sem skiptir búi, er einkum að finna: a) í erfðalögum sem segja til um hvernig skipta skuli í hlutföllum milli erfingja og eftir hverjum sjónarmiðum farið skuli við ákvörðun skiptingar og úthlutun, b) lögum um réttindi og skyldur hjóna sem geyma samsvarandi reglur um búskipti milli hjóna við skilnað og að nokkru við andlát annars hjóna, c) ólögfestum almennum reglum um sameign. Þær reglur varða skipti félagseigna við slit sameignarfélags samkvæmt lögunum og önnur tilvik þar sem um sameign er að ræða og sameigninni verður slitið af skiptaráðanda en ekki með uppboði til slitar sameignar eða með umfjöllun almennra dómstóla.“

Síðar segir í umsögn borgarfógetaembættisins: „Vilji löggjafinn taka af tvímæli um skýringu á 90. gr. skiptalaga og lögfesta þá reglu að skiptaréttur skuli skipta búi sambýlisfólks við sambúðarslit að kröfu annars þeirra telur undirritaður ekki óeðlilegt að ákvæði þess efnis sé fellt inn í núgildandi texta 90. gr. Gæti upphaf þeirrar greinar þá t.d. hljóðað þannig: Um skipti á öðrum búum en dánarbúum, t.a.m. samlagsbúum, er hrökkva fyrir skuldum, og búum sambýlisfólks við slit á óvígðri sambúð, fer sem um opinber skipti á dánarbúum með þeim breytingum sem leiðir af eðli þeirra. - Slíkri breytingu þyrfti þá að fylgja skilgreining á því hvað átt sé við með óvígðri sambúð og læt ég liggja á milli hluta hvort sú skilgreining á að vera í því horfi sem sett er fram í 3. mgr. frv.

Að öðru leyti en að framan er gefið virðist frv. hafa að geyma hreinar efnisreglur, t.d. fyrirmæli um það hvernig ákvarða skuli hlut hvors aðila í búinu. Ég tel mjög óeðlilegt og óæskilegt að setja slíkar reglur í skiptalögin, en þau hafa eins og áður greinir fyrst og fremst að geyma verklagsreglur um skipti. Þær efnisreglur sem koma til álita við skipti milli sambýlisfólks eru þegar að hluta til fyrir hendi í fordæmisreglum hæstaréttardóma sem gerð er grein fyrir í fylgiskjölum með frv. Eru þar fyrir hendi nægjanlega skýrar grunnreglur um gildandi rétt á þessu sviði sem síðar mundu nánar afmarkast með dómaframkvæmd að óbreyttum lögum. Tel ég þá þróun mála mun heppilegri en lögfestingu efnisreglna, enda ljóst að samning lagareglna sem tækju af tvímæli um einstök tilvik sem upp geta komið yrði vandasöm og tímafrek. Sé það hins vegar vilji löggjafans að lögfesta slíkar efnisreglur eiga þær með engu móti heima í skiptalögum fremur en reglum um lögerfðarétt svo dæmi sé tekið.“

Að auki gerði borgarfógetaembættið athugasemd við gildistöku greinarinnar, m.a. þá að lögin tækju aðeins til skipta á búum þeirra er slitið hafa sambúð og ekki hafa komið sér saman um eignaskipti, enda hafi þá ekki þegar verið höfðað mál fyrir almennum dómstóli vegna eignaskiptanna.

Við endurflutning málsins á þessu þingi hafa flm. tekið tillit til þeirra ábendinga sem fram komu í umsögn borgarfógetaembættisins og ég hef hér greint frá. Frvgr. er því nú að efni til þannig að bætt er við heimild fyrir skiptarétt til að skipta búi sambýlisfólks við slit á óvígðri sambúð eða við andlát annars aðilans. Efnisreglum um hvað skiptarétti beri að hafa til hliðsjónar við skiptin er sleppt í frvgr. sjálfri, en þess getið í umsögn um 1. gr. í frv. að eðlilegt verði að telja að skiptaréttur hafi við skipti á búi sambúðarfólks hliðsjón af fjárhag aðila, hve lengi sambúð hefur staðið og öðru er varðar hag aðila, svo sem framlagi hvors um sig til sameiginlegs heimilis á sambúðartíma með vinnu, fé til framfærslu eða á annan hátt.

Auk þess sem í frvgr. er nú eingöngu bætt víð heimild fyrir skiptarétt til að skipta búi sambúðarfólks án þess að nánar sé þar farið út í efnisreglur kemur fram í frvgr. skilgreining á því hvað sé óvígð sambúð. Þar er stuðst við þá skilgreiningu sem viðurkennd er í öðrum lögum, t.a.m. almannatryggingalögunum, um hvað telst vera óvígð sambúð.

Fjöldi þeirra sem kjósa að búa í óvígðri sambúð hefur farið vaxandi á undanförnum árum og samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands er fjöldi þeirra sem búa í óvígðri sambúð um 10 600. Börn foreldra sem búa í óvígðri sambúð eru 5147. Hér er einungis um að ræða óvígða sambúð sem skráð er hjá Hagstofu Íslands og því efalítið um að ræða mun fleiri sem búa í óvígðri sambúð.

Nú er því þannig háttað, eins og áður sagði, að það vantar alla lagavernd við slit á óvígðri sambúð. Því hefur margsinnis komið fram mikið misrétti við fjármálauppgjör milli sambúðarfólks og oft risið upp vandasöm mál sem mörg ár hefur tekið að leysa. Alþingi lét þetta mál til sín taka árið 1980, en á árinu 1981 var samþykkt þáltill. frá þm. Alþfl. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta nú þegar fara fram könnun á réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Í því skyni skipi viðkomandi ráðherra nefnd er geri tillögur um hvernig réttindum þess verður best fyrir komið, sérstaklega með tilliti til eignar- og erfðaréttar. Nefndin skal hraða störfum svo sem kostur er og skila álitsgerð og tillögum áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman.“

Þó að fimm ár séu liðin frá samþykkt þessarar tillögu situr allt við það sama í þessu hagsmunamáli fólks í óvígðri sambúð. Réttarstaða fólks í óvígðri sambúð, einkum efnahagsleg, einkennist því áfram af öryggisleysi og óvissu við slit sambúðar.

Eignamyndun er oft sameiginlegt framlag beggja sambúðaraðila, ýmist beint, t.d. ef bæði hafa haft atvinnutekjur, eða þá óbeint þegar konan vinnur á heimili og stuðlar þannig að bættri aðstöðu karlmannsins til tekjuöflunar. Nefna má að stundum stendur sambúð svo áratugum skiptir og allar eignir búsins hafa orðið til á þeim tíma. Ef um eignamyndun á húsnæði er að ræða á sambúðartímanum geta risið upp mikil vandamál við sambúðarslit þegar aðeins annar eigandinn er skráður eigandi fasteigna.

Í hæstaréttardómum má og sjá að oft hefur verið farin sú leið til að draga úr mesta óréttlætinu að dæma konunni þóknun fyrir störf hennar í þágu heimilisins. Það liggur þó í augum uppi að ef eignamyndunin hefur verið mikil á sambúðartímanum getur slík þóknun verið hverfandi samanborið við eignirnar. Hin síðari ár hefur þó niðurstaða dómstóla um slit óvígðrar sambúðar í auknum mæli verið sú til að koma í veg fyrir ósanngjarna niðurstöðu að farið er að dæma hlutdeild í eignamyndun á sambúðartímanum eða viðurkenna sameign aðila. ljóst er þó að dómstólaleiðin er bæði erfið, dýr og oft seinvirk og það getur því tekið nokkur ár að fá niðurstöðu um fjárskipti við slit á óvígðri sambúð.

Þó að fyrir liggi vilji Alþingis um að tryggja beri réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð, sbr. ályktun Alþingis frá í febrúar 1981, er engu að síður ljóst að ekki bólar enn á því að stjórnvöld leggi fram frv. sem tryggi réttarstöðu fólks ef til fjármálauppgjörs kemur vegna slita á óvígðri sambúð.

Flm. þessa frv. telja að mikið sé í húfi að Alþingi taki þegar af skarið til að tryggja eignarrétt í óvígðri sambúð. Frv. er þess efnis, eins og áður greinir, að skiptarétti verði heimilað að skipta búi sambúðarfólks. Með því ynnist hvort tveggja í senn: Það kæmi í veg fyrir tímafrekan málarekstur við slit á óvígðri sambúð og svo hitt, sem ekki er minna um vert, það hindraði að annar sambúðaraðilinn biði mikið fjárhagslegt tjón þegar upp úr sambúð slitnar. Hér er um einfalda lagabreytingu að ræða og verður að vænta þess að samstaða náist á Alþingi um hana, enda varðar það hagsmuni og réttarstöðu fjölda fólks sem er í óvígðri sambúð.

Norrænar sifjalaganefndir bæði í Danmörku og Noregi hafa lagt til að þessi leið verði farin. Í Svíþjóð liggur fyrir frv. þar um.

Í fskj. I með þessu frv. er kafli úr ritgerð Guðrúnar Erlendsdóttur dósents í Tímariti lögfræðinga 3. hefti, nóvember 1981, um fjármál hjóna og sambúðarfólks. Er þar greint frá norrænni samvinnu á þessu sviði og umfjöllun dönsku og norsku sifjalaganefndanna um þetta mál svo og dómum um sameign. Sérstaklega skal bent á álit dönsku sifjalaganefndarinnar sem telur mikilvægt að fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar geti komið fyrir skiptarétt. Að auki má benda sérstaklega á þann kafla í ritgerðinni sem ber heitið „Er þörf á lagareglum um fjármál sambúðarfólks?". Þar kemur fram að nauðsynlegt sé að breyta skiptalögunum á þann veg að skiptaréttur geti skipt búi sambúðarfólks.

Að lokum, herra forseti, skal bent á athyglisverðar upplýsingar sem koma fram í erindi sem Guðrún Erlendsdóttir dósent flutti á fundi Dómarafélags Íslands 25. okt. 1984 og sýna ljóslega hve brýnt er að tryggja réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð við sambúðarslit að því er varðar fjármálauppgjör. Þar kemur fram að þingfest mál varðandi fjárskipti við slit óvígðrar sambúðar í bæjarþingi Reykjavíkur voru á milli 80 og 94 árið 1982, en á milli 90 og 100 á árinu 1983.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta frv. lengra mál. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. allshn.