07.04.1986
Neðri deild: 73. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

202. mál, verðbréfamiðlun

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Á þessu stigi málsins eru aðeins örfá orð um þetta frv. til laga um verðbréfamiðlun.

Eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh. er megintilgangurinn með þessari frumvarpssmíð að binda starfsemi verðbréfamarkaða við sérstök starfsleyfi samkvæmt sérstökum skilmálum og að tryggja í annan stað aukið eftirlit með þessari starfsemi sem nú er á bernskuskeiði í landinu. Eitt meginatriði í erindisbréfi nefndarinnar var reyndar að athuga og fjalla um samræmingu á reglum um skattalega meðferð skuldabréfa og koma með tillögur til úrbóta í því efni, en eins og segir í grg. hefur nefndin enn ekki komist að því verki. En hún mun starfa áfram, skilst mér, og skila tillögum um það efni síðar.

Þessi tvö meginatriði, að koma lögum yfir verðbréfamarkaðinn samkvæmt sérstökum skilmálum um starfsleyfi og að tryggja eftirlit með þeirri starfsemi samkvæmt nánari ákvæðum, eru auðvitað af hinu góða. Það er seinni þátturinn, eftirlitsþátturinn, sem einkum snertir aðra löggjöf sem nú er í meðförum þingsins, lög um Seðlabanka og um bankaeftirlit. Eitt með mörgum ágreiningsefnum um það er einmitt hvernig skuli haga starfsgrundvelli bankaeftirlitsins. Eru uppi ýmsar skoðanir á því. Samkvæmt fyrirliggjandi frv. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið sé áfram deild í Seðlabanka og lúti stjórn bankastjórnar og bankaráðs, jafnvel þó forstöðumaður bankaeftirlits sé ráðherraskipaður, og er meira að segja þannig um hnútana búið að yfirmaður bankaeftirlitsins er jafnframt meðlimur stjórnarnefndar sem á að hafa eftirlit með starfsemi bankaráðsins. Þetta þykir mörgum heldur klúðurslegt og ýmsir hafa lýst þeirri skoðun sinni afdráttarlaust að best færi á því að bankaeftirlitið væri sjálfstæð stofnun, enda liggur fyrir á hinu háa Alþingi tillaga þess efnis að bankaeftirlitið verði algjörlega sjálfstæð stofnun og heyri beint undir ráðherra og viðskrn.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þetta væri skynsamlegasta leiðin þannig að bankaeftirlitið hafi á sinni könnu eftirlit með Seðlabankanum sjálfum, viðskiptabönkum og verðbréfamarkaði. Þessi mál koma væntanlega til ítarlegrar umræðu þegar fjh.- og viðskn. deildarinnar hefur skilað brtt. og nál. um fyrirliggjandi frv. um Seðlabanka.

Ég vil, herra forseti, nota tækifærið til að lýsa yfir ánægju minni með þær brtt. sem gerðar hafa verið á þessu frv. í meðförum fjh.- og viðskn. Ed. Að því er varðar Il. kaflann, um leyfisveitingar, eru þessar brtt. tvennar, þ.e. í fyrsta lagi að fyrir utan persónubundið starfsleyfi, sem er háð sérstökum skilmálum, er bætt við tveimur skilmálum öðrum, í fyrsta lagi að umsækjandi setji bankatryggingu til að standa straum af greiðslu skaðabóta sem honum kann að vera gert að greiða viðskiptamanni og í annan stað að binda í lög að skylt skuli vera að löggiltur endurskoðandi annist endurskoðun verðbréfafyrirtækja.

Þá sýnist mér í fljótu bragði að því er varðar kaflann um eftirlit með starfsemi verðbréfamarkaða að það sé tvíþætt, í fyrsta lagi að engir annist þessa starfsemi aðrir en þeir sem fengið hafa tilskilin leyfi og í annan stað að nú eru skilgreind ákveðin grunnhugtök í lagatexta um þær lagaskyldur sem þeir þurfa að uppfylla í starfi sínu. En þriðji þátturinn kom til umræðu áður á hinu háa Alþingi og varðaði samskipti verðbréfamarkaðarins við almenning. Í því efni vísa ég til ræðu hv. 3. þm. Reykn. Kjartans Jóhannssonar sem gagnrýndi á sínum tíma mjög villandi ef ekki beinlínis rangar upplýsingar sem birtust í auglýsingum frá verðbréfafyrirtækjum og þá einkum og sér í lagi um ávöxtunarkjör.

Mér sýnist af brtt. fjh.- og viðskn. að tekið hafi verið tillit til þessarar gagnrýni, einkum og sér í lagi með þeim ákvæðum sem eru sett í brtt. með kröfum um upplýsingar um ávöxtunarkjör. Þá er gert ráð fyrir í brtt. að bankaeftirlitið sendi álitsgerð með þessum upplýsingum til viðskrh. og verðlagsráðs. Þetta var einmitt eitt meginatriðið í gagnrýni hv. 3. þm. Reykn. og virðist hafa verið tekið fullt tillit til þess. Ætlast er til að þessar upplýsingar til viðskrh. og verðlagsráðs verði sendar sérstaklega til verðlagsráðs og framkvæmd eftirlitsins tengist þannig ákvæðum V. kafla laga um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, en sá kafli fjallaði einkum um neytendavernd. Þannig getur verðlagsráð samkvæmt ákvæðum þessa kafla bannað athafnir sem í því felast að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum, enda séu þessar auglýsingar til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteignaþjónustu eða annars sem þar er haft á boðstólum í atvinnuskyni.

Ákvæði brtt. um framkvæmd á refsiákvæðum sýnast mér fljótt á litið einnig vera til bóta þannig að ég vil í fljótu bragði lýsa heldur jákvæðri afstöðu til þessa máls og eins stuðningi við þær brtt. sem fyrir liggja á þskj. 640 frá fjh.- og viðskn. Ed.