08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (3150)

323. mál, nám í ferðamannaþjónustu

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Spurt er um hvaða nám sé í boði fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu. Hótel- og veitingaskóli Íslands annast um menntun matreiðslu- og framreiðslumanna og hefur gert það frá árinu 1955 er skólinn var stofnaður. Matreiðsla og framreiðsla eru lögverndaðar iðngreinar og fer verklegi hluti námsins fram á vinnustöðum undir stjórn meistara.

Hússtjórnarskólar veita hagnýta undirbúningsmenntun t.d. í heimilisfræðum, meðferð líns, ræstingu og framreiðslu. Þetta er nefnt hér vegna þess að í vaxandi mæli taka heimili bæði í bæjum og sveitum landsins ferðamenn til gistingar og veita þeim beina þegar hótel og veitingastaðir anna ekki eftirspurn. Einstaka hússtjórnarskólar hafa í samráði við Samband veitinga- og gistihúsa gefið nemendum kost á valnámi sem sniðið er að störfum í veitinga- og gistihúsum. Aðsókn að þessu námi hefur ekki verið mikil.

Félag leiðsögumanna hefur haldið uppi námi fyrir leiðsögumenn. Flugleiðir þjálfa á sínum vegum flugfreyjur og flugþjóna og enn má þess geta að Bændaskólinn á Hvanneyri hefur veitt ferðaþjónustu bænda fyrirgreiðslu í fræðslu um ferðamál.

Í öðru lagi er spurt um hvort einhverra breytinga sé að vænta í námi í ferðaþjónustu. Því er til að svara að í undirbúningi er að koma upp húsnæði í Kópavogi, og hefur verið um alllanga hríð, fyrir hótel- og matvælagreinar sem tengist Menntaskólanum í Kópavogi. Þar er ætlað að verði miðstöð kennslu í ferðaþjónustu í landinu. Hún mun þá taka til allra helstu greina, svo sem matreiðslu, framreiðslu, línþvotta, ræstingar, gestamóttöku og leiðsagnar fyrir ferðamenn. Menntaskólinn í Kópavogi hefur nú nýverið fengið heimild til þess að undirbúa leiðsögubraut. Þá er verið að endurskoða námsskrár fyrir hótel- og veitinganám.