08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

323. mál, nám í ferðamannaþjónustu

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svar hans. Eins og ég átti von á er ekki feitt á stykkinu í þessum efnum. Nám sem er í boði fyrir starfsfólk sem vill vinna að ferðaþjónustu er ákaflega tilviljanakennt. Hann minntist á Hótel og veitingaskólann sem er ákaflega vanbúinn eins og er í leiguhúsnæði sem hentar illa og er uppsegjanlegt með sex mánaða fyrirvara. En eins og hæstv. menntmrh. nefndi, þá er fyrir hendi nokkurra ára samkomulag um það að Hótel- og veitingaskólinn verði byggður upp í tengslum við Menntaskólann í Kópavogi, enda engin verkmenntun í boði í Kópavogi. Var raunar ætlunin þegar þetta samkomulag var gert að þessi aðstaða væri fyrir hendi nú í ár, en engin skóflustunga hefur verið stungin enn þannig að það er ekki búið að byggja húsnæði fyrir þennan skóla.

Það er allt gott um það að segja sem áformað er. Hins vegar er það mín skoðun að ekki sé nóg að bjóða upp á sérhæft nám á einum stað, það verði að byggja upp nám sem gagnist víðar um landið. Reyndar minntist hæstv. ráðh. á hússtjórnarskólana sem hafa boðið upp á nám sem nýtist í ferðaþjónustu, en það nám veitir ekki svo að mér sé kunnugt um nein réttindi umfram aðra, þótt hugsanlegt sé að eitthvað sé sóst eftir fólki sem hefur stundað nám í hússtjórnarskólum, en ég veit ekki til þess að það tryggi fólki hærri laun þótt það hafi stundað nám þarna.

En eins og við ræddum raunar hérna, þeir þm. sem tóku til máls um till. okkar um úrbætur í ferðaþjónustu sem var til umræðu hér fyrir nokkrum vikum, þá vorum við sammála um að það væri brýnt að byggja upp nám í ferðaþjónustu sem víðast um landið. Það var minnst á húsmæðraskólana og það var minnst á fjölbrautaskólana sem mætti nýta í þessu skyni. Svo er auðvitað kjörið og alveg upplagt að skipuleggja fjarnám í þessum fræðum. Núv. hæstv. menntmrh. virðist sem betur fer hafa áhuga á þeirri leið til miðlunar fræðslu og ég minni á frv. Kvennalistans um fjarnám sem Guðrún J. Halldórsdóttir mælti fyrir þegar hún var hér á þingi. En ég vil svo aðeins að lokum hvetja til að þetta mál leggist ekki í salt. Mér finnst okkur liggja töluvert á. Það er mikið verk óunnið í skipulagningu og vinnslu kennslugagna og ekki ráð nema í tíma sé tekið.