08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3516 í B-deild Alþingistíðinda. (3162)

373. mál, sjúkraflutningar

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 663 hef ég leyft mér að leggja fram fsp., en áður en ég vík að þeim vil ég, með leyfi forseta, hafa örfá inngangsorð að þeim fsp.

Eins og hv. þm. mun væntanlega ljóst hafa komið upp vandamál á nokkrum stöðum vegna sjúkraflutninga. Þau vandamál eru ábyggilega mismunandi og mismunandi erfitt að leysa þau, en hér er spurt varðandi sjúkraflutninga í Ísafjarðarkaupstað.

Fram til 12. jan. 1982 annaðist lögreglan á Ísafirði sjúkraflutninga fyrir Ísafjarðarkaupstað og nærliggjandi sveitarfélög og greiddi Ísafjarðarkaupstaður launakostnað löggæslumanna er féll til vegna sjúkraflutninga utan reglulegs vinnutíma þeirra. Slökkviliðið var skipað einum fastráðnum starfsmanni sem var slökkviliðsstjórinn.

Þann 12. jan. 1982 var gert bráðabirgðasamkomulag til 1. okt. 1982 milli lögreglustjórans á Ísafirði og bæjarsjóðs Ísafjarðar um að slökkviliðið á Ísafirði annaðist sjúkraflutninga í samvinnu við lögregluna á Ísafirði. Jafnhliða þessu samkomulagi var ráðinn viðbótarstarfsmaður við slökkviliðið þannig að fastráðnir starfsmenn slökkviliðsins voru tveir.

Þann 1. okt. 1982 hætti lögreglan á Ísafirði afskiptum af sjúkraflutningum og frá þeim tíma hefur slökkviliðið á Ísafirði alfarið annast þá fyrir Ísafjörð og nágrenni.

Viðræður hafa farið fram við dómsmrn., bæjarfógetann á Ísafirði og lögreglumenn um að lögreglan taki að sér sjúkraflutninga í kaupstaðnum eins og var fyrir 1982. Bæjarsjóður hefur verið reiðubúinn til að inna af hendi greiðslur til ríkissjóðs og/eða Félags lögreglumanna fyrir þessa þjónustu, en eins og fram kemur í bréfi bæjarfógetans á Ísafirði, dags. 9. mars 1984, hefur þessari málaleitan verið hafnað.

Eins og málum er nú komið kemur í ljós að útgjöld hjá Ísafjarðarkaupstað vegna sjúkraflutninga voru á s.l. ári 2 260 124 kr. Ég þekki engin dæmi þess að slíkar tölur séu á borði fyrir sjúkraflutninga í byggðarlögum eða bæjarfélögum hér á landi. Ég hef þess vegna leyft mér að leggja fram á þskj. 673 fsp. til hæstv. dómsmrh. um fyrirkomulag sjúkraflutninga. Fsp. er þannig, með leyfi forseta:

„1 Hefur dómsmrn. neitað samstarfi og þátttöku í kostnaði vegna sjúkraflutninga í Ísafjarðarkaupstað? Ef svo er, hverjar eru ástæður þess?

2. Í hvaða bæjar- eða sveitarfélögum er samstarf um sjúkraflutninga milli löggæslumanna og/eða sveitarstjórna?"

Ég hef upplýsingar um að í ýmsum bæjar- og sveitarfélögum er þessi kostnaðarhlutur miklum, miklum mun minni en hér er um að ræða að því er varðar Ísafjarðarkaupstað. Að fyrir þetta skuli borgað 2 millj. 260 þús. á ári er afskaplega mikil fjárhæð, ekki vegna þess fólks sem að þessu vinnur heldur er spurningin hvort ekki megi samræma aðgerðir til þess að annast þessa flutninga með ekkert síðri hætti en nú gerist.

Þetta eru um 664 kr. á hvern íbúa á Ísafirði. Sambærilegar tölur eru allt frá 22 kr. á íbúa og upp í 130 kr. á íbúa. Þarna er greinilega gífurlega mikill munur á, hvað er lagt í beinan kostnað vegna þessa, og spurningin er hvort ekki er hægt að hagræða þessum vinnubrögðum með miklu skynsamlegri hætti en eigi að síður gera þessum hlutum góð skil.