08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3519 í B-deild Alþingistíðinda. (3165)

373. mál, sjúkraflutningar

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Ég vil einnig og ekki síður þakka hv. þm. Friðjóni Þórðarsym fyrrv. dómsmrh. fyrir þær athugasemdir sem hann gerði sem ég tek undir og eru sterkar.

Að því er varðar Ísafjarðarkaupstað sagði hæstv. ráðh. að hann vissi ekki vegna hvers ekki hefði verið komið á samkomulagi í Ísafjarðarkaupstað vegna sjúkraflutninga. Ég hef í höndum bréf sem Pétur Kr. Hafstein hefur undirritað 4. júlí 1983. Í lok þessa bréfs segir, með leyfi forseta:

„Ég vil að lokum leggja á það áherslu að þetta boð felur ekki í sér breytingu á þeirri afstöðu dómsmrn. að sveitarfélög skuli bera veg og vanda af sjúkraflutningum. Hér er einungis um að ræða tilraun til skynsamlegrar nýtingar á þeirri aðstöðu lögreglumanna sem fyrir hendi er án þess að hún hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Það liggur í raun og veru fyrir að ráðuneytið neitar samstarfi að því er þennan þátt varðar.

Á ýmsum öðrum stöðum eru sjúkraflutningar framkvæmdir af lögreglu. Ég bendi t.d. á Vestmannaeyjar. Þar er sjúkraflutningur framkvæmdur af lögreglu og þar er kostnaðurinn pr. íbúa 130 kr. á móti 664 kr. á Ísafirði. Þetta eru ekki ósambærilegir staðir að því er mannfjölda varðar. Að einhverjum hluta hlýtur ríkissjóður að taka meiri þátt í kostnaði þarna en í Ísafjarðarkaupstað.

Á Akranesi, sem hæstv. ráðh. nefndi hér, er kostnaður pr. íbúa 20 kr. á móti 664 kr. á Ísafirði.

Menn sjá að þetta getur ekki gengið til lengdar. Með einhverjum hætti verður að samræma þessa hluti, að það gangi jafnt yfir alla í þessum tilvikum. Mér er kunnugt um að á Austfjörðum kom upp slíkt mál og bæjarfógeti þar réði málinu til lykta í samvinnu við heimamenn og ráðuneyti. Það varð ekkert mál úr því. Hér er að mínu viti gersamlega óviðunandi aðstaða að því er varðar Ísafjörð.

Ég hef líka í höndunum bréf frá 9. mars 1984 frá Pétri Kr. Hafstein þar sem segir, með leyfi forseta, í lokin: „Við þessar aðstæður tel ég ekki rétt að ræða frekar um þátttöku lögreglunnar í sjúkraflutningum á Ísafirði og tilkynni yður því hér með að af minni hálfu er viðræðum um þetta mál lokið.“

Sýslumaður tilkynnir skriflega að viðræðum hans um sjúkraflutninga á Ísafjarðarkaupstað sé hér með lokið. Þetta er dags. 9. mars 1984.

Ég tel þetta mikið alvörumál og ég vil beina því til hæstv. dómsmrh. að hann gangi í að leiðrétta þessa hluti. Þetta getur ekki gengið svona öllu lengur. Hér verður að vera samræmi í hlutum. Það hlýtur að eiga við Ísafjarðarkaupstað eins og aðra kaupstaði í landinu. Við hljótum að fara fram á það að hæstv. ráðh. gangi í þetta mál og leysi það með viðunandi hætti eins og gert hefur verið víðast hvar ef ekki alls staðar annars staðar á landinu.