08.04.1986
Sameinað þing: 69. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3521 í B-deild Alþingistíðinda. (3169)

391. mál, eftirlaun til aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. hv. 2. þm. Austurl. hljóðar svo:

„Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á lögum um eftirlaun til aldraðra þannig að lífeyrisþegar, fæddir eftir 1914, njóti viðbótar frá umsjónarnefnd eftirlauna ef réttur þeirra er mjög skertur hjá eigin lífeyrissjóði?"

Frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1979, um eftirlaun til aldraðra, var til meðferðar á Alþingi haustið 1984. Lögunum, sem upphaflega voru sett 1971 og eru nr. 63, var ætlað að gilda til ársloka 1984. Var þá miðað við að í árslok 1984 yrðu liðin 15 ár frá því að samið var um stofnun lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna og hefðu þeir að þeim tíma liðnum fengið bolmagn til að taka sjálfir á sig greiðslur þessar, jafnframt því sem þá hefðu allir þeir, sem lögin gera ráð fyrir að öðlist eftirlaunarétt, náð 70 ára aldri.

Ákvæði um greiðslur uppbótar á lífeyri náðu upphaflega til áranna 1980-1982, en voru síðan framlengd til ársloka 1984. Við meðferð málsins á Alþingi 1984 var ljóst að Alþingi gæti sætt sig við fimm ára framlengingu gildistíma laganna að því tilskildu að framlag lífeyrissjóða lækkaði úr 5% í 4% árið 1985 og 3% árið 1986. Þá var ljóst að þm. voru sammála um að skilyrði fyrir rétti til eftirlauna yrðu óbreytt og útgjöld yrðu borin uppi af sömu aðilum og áður. Ég tel því ljóst að Alþingi gerði ráð fyrir því að það eftirlaunakerfi sem hér er um að ræða ætti að enda sitt skeið og leggjast niður að fimm árum liðnum frá gildistöku laganna. Við meðferð málsins á Alþingi var einnig rætt um nauðsyn þess að stjórnvöld og lífeyrissjóðir búi sig undir þá breytingu sem af þessu hlýst, þannig að ekki yrði óvissa um réttindi neinna þeirra einstaklinga sem réttinda eiga að njóta, og taki tillit til þeirra fjárhagsskuldbindinga sem breytingin hefur í för með sér.

Með vísun til þessa verður að svara fsp. fyrirspyrjanda því að það hefur ekki verið gert ráð fyrir að gera breytingu á lögum um eftirlaun aldraðra nú þannig að lífeyrisþegar fæddir eftir 1914 njóti viðbótar frá umsjónarnefnd eftirlauna. Sú afstaða byggist á því að það verður að gera ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir taki þessi mál sérstaklega fyrir og þá með það fyrir augum að koma til móts við þá lífeyrisþega sem eiga mjög skertan rétt í lífeyrissjóðunum.