08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (3171)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp af þeirri ástæðu að í gær bar ég fram ósk um það við hæstv. forseta að fá að taka til máls utan dagskrár á fundi sameinaðs þings í dag með vísan til 32. gr. þingskapa, fyrri málsgr., og tilefni þess að þessi ósk var fram borin er sú að á morgun stendur fyrir dyrum fundur utanrrh. Norðurlanda, sem hæstv. utanrrh. ætlar að sækja, og meðal efna sem þar munu liggja fyrir, ef marka má samþykkt danska þjóðþingsins frá 3. apríl s.l., er tillaga um að setja á fót sérstaka norræna embættismannanefnd til þess að fjalla um og undirbúa tillögur um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.

Ég hefði talið æskilegt að hæstv. ráðh. yrði í Alþingi áður en hann héldi til þessa fundar þar sem dönskum stjórnvöldum hefur verið falið af meiri hluta danska þjóðþingsins að leggja fyrir á þessum fundi tillögu um þetta mikilsverða mál. Svo fór hins vegar eftir samræður mínar við hæstv. forseta Sþ. að þessari beiðni minni var hafnað afdráttarlaust. Ég skil ekki rökin sem að þessari synjun lágu og kemst ekki hjá því að vekja athygli á þessum vinnubrögðum sem komu mér satt að segja verulega á óvart, ekki síst í ljósi þess sem oft hefur komið fram hjá hæstv. forseta um ágæti þeirra breytinga á þingsköpum Alþingis sem er m.a. að finna í 32. gr. þingskapa. Hæstv. forseti hefur oft vitnað til þess að það gæfi tilefni til þess innan knapps tímaramma fyrir þm. að kveðja sér vafningalaust, eins og ég hygg að hann hafi orðað það á stundum, hljóðs í Sþ. til að vekja athygli á málum eða inna ráðherra eftir svörum varðandi þeirra afstöðu.

Það lá að vísu fyrir þegar hæstv. forseti synjaði beiðni minni um þessa umræðu utan dagskrár að hæstv. utanrrh. vildi ekki eiga hlut að umræðu um þetta mál í Sþ. og hafði lýst því yfir við mig eftir umhugsun að hann vildi ekki tjá sig á fundi Sþ. um þá stöðu sem væntanlega kemur upp á fundi utanrrh. Norðurlanda á morgun og þá tillögugerð sem þar liggur fyrir.

Nú er það víst að Alþingi hefur ályktað í þessum efnum og norrænir þm. hafa um þessi efni fjallað á þessum vetri, um mánaðamót nóvember og desember, og borið saman bækur sínar. Ég vil út af fyrir sig ekki vera að túlka sjónarmið þingflokka á Alþingi um þetta mál umfram það sem fyrir liggur í samhljóða ályktun Alþingis, en ég hygg þó, það er mitt mat, að hér sé ótvíræður vilji meiri hlutans á Alþingi fyrir því að taka undir þá samþykkt, sem gerð var á danska þjóðþinginu 3. apríl s.l., að taka þessi mál formlega og skipulega fyrir eins og mörg önnur mikilsverð mál á samnorrænum vettvangi.

Ég leyfi mér, herra forseti, að mótmæla því, sem fram kemur í þeirri synjun sem forseti tjáði mér um hádegið í dag, að þetta mál fengist ekki rætt hér í knöppum tíma skv. 32. gr. þingskapa, og hefði talið að hæstv. utanrrh. væri betur nestaður, jafnvel þótt hann ekki vildi taka þátt í slíkri umræðu, eftir að hafa heyrt hljóðið í þm. áður en hann heldur út á hinn samnorræna vettvang.