08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3523 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

Um þingsköp

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Mér hafði borist í hendur samþykkt danska þjóðþingsins, sem gerð var fyrir skömmu, varðandi skipan embættismannanefndar til að athuga og fjalla um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og ég lét nefndarmönnum utanrmn. þessa samþykkt í té á fundi utanrmn. í gær. Ég hef ekki neinar frekari upplýsingar um þetta mál í dag, en á fundi utanrrh., sem hæstv. forseti vék að hér áðan og ég tek þátt í á morgun í Stokkhólmi, mun ég væntanlega fá frekari upplýsingar varðandi umrædda samþykkt danska þjóðþingsins.

Á fundi utanrmn. í gær var ákveðið að boða til fundar í utanrmn. n.k. mánudagsmorgun og ég gerði þar utanrmn. grein fyrir því sem fram hefði komið á fundi utanríkisráðherranna varðandi samþykkt danska þjóðþingsins. Þá hefðu allir þingflokkar upplýsingar þegar umræða um skýrslu þá um utanríkismál sem ég hef lagt fram á þingi í dag fer fram í næstu viku, eins og hæstv. forseti hefur gert grein fyrir.

Ég tel því ekki viðeigandi að fallast á að hefja utandagskrárumræðu um einstaka þætti utanríkismála þegar fram undan eru almennar umræður um það mál á grundvelli þess þskj. sem lagt hefur verið fram en þm. hafa ekki haft tækifæri til að kynna sér.

Þetta vildi ég segja út af orðum hv. þm.