08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (3179)

Um þingsköp

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Forseti tekur undir þau orð hv. 5. þm. Austurl. sem hann viðhafði í ræðu sinni að þinginu bæri að vernda þingsköpin. Það er aðalatriðið um framkvæmd þingskapa að farið sé rétt að.

Hv. þm. kvaðst hafa áhyggjur af þeirri stefnu sem túlkun forseta á framkvæmd þingskapa væri að taka. Ég vænti þess að hv. þm. þurfi við nánari athugun engar áhyggjur að hafa af þessu og á það skal bent að sú ákvörðun sem tekin var um það mál sem við hér ræðum er byggð á þeim sjónarmiðum sem forseti hefur leitast við að fylgja um ákvarðanatöku varðandi umræður utan dagskrár frá því að þau þingsköp sem við nú höfum voru sett. Það er ekkert athugavert við það þó að skiptar skoðanir geti verið um framkvæmdina. En ég vek athygli á því, sem áður var sagt, að menn komast venjulega að sameiginlegri niðurstöðu við umræður um málin frá þeim sjónarmiðum sem forseti hefur lagt til grundvallar um framkvæmd þessara ákvæða þingskapa skv. 32. gr.