08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3530 í B-deild Alþingistíðinda. (3180)

Um þingsköp

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Mál þetta er að skýrast, sýnist mér, en tilefni þess að ég kem hér upp er það að fund utanrmn. í gær hefur borið hér á góma og þær umræður sem þar urðu. Ég tel mér bæði rétt og skylt að upplýsa það sem getur ekki verið neitt leyndarmál, eins og einhver ræðumanna sagði hér áðan, að þetta mál var rætt á fundinum og þar var lögð fram þessi ályktun danska þingsins. Ég hafði raunar fengið hana hjá utanrrh. tveimur dögum áður þegar við vorum að undirbúa fundinn og þá stóð alltaf til að ræða það mál í nefndinni enda ráðherrann beinlínis að skýra okkur frá sinni væntanlegu utanför. Og málið var einfaldlega það að við urðum öll sammála um að leggja ráðherra ekki neinar lífsreglur fyrir utan það sem áður hefur verið gert. Eins og hér hefur raunar komið fram hjá t.d. hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur ráðherra auðvitað vegarnesti frá Alþingi Íslendinga og það ekki ómerkilegt.

En við urðum sem sagt sammála og ég ítrekaði það í lokin, tvisvar eða þrisvar og spurði að því í fullskipaðri nefnd, þar sem jafnframt var áheyrnarfulltrúi frá Bandalagi jafnaðarmanna, hvort þar væri nokkur maður sem teldi það eðlilegt að ráðherrann samþykkti á þessum fundi eitthvað, hvort hann ætti ekki að koma með málið til baka til utanrmn. Það var ákveðið að það skyldi hann gera n.k. mánudag. Fundurinn var í raun boðaður þar með. Þess vegna var ég auðvitað mjög hissa þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kemur hér upp og ávítar ráðherra og forseta fyrir það að telja þessa umræðu naumast tímabæra. Við skulum hafa þetta alveg á hreinu að þarna voru allir utanríkismálanefndarmenn sammála um að það væri óeðlilegt að utanrrh. kæmi með eitthvað bindandi af þessum fundi, hann ætti að koma með upplýsingar og skýra okkur frá þeim.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða um þetta málefnalega, um þörf á kjarnorkuvopnalausu svæði o.s.frv. Það kemur tími til þess í næstu viku og við eigum að ræða hér um þingsköp og þess vegna skal ég ekki ítreka þetta að öðru leyti en því að það hefðu auðvitað verið óeðlileg þingsköp í víðri merkingu að virða ekki þessa óformlegu, skulum við segja, ákvörðun utanrmn. í gær og virða hana þá ekki nema í tvo tíma eða svo og ætla þá að fara að krefja þann utanrrh. sem utanrmn. var búin að biðja fyrst og fremst að hlusta og koma með upplýsingar til okkar um það hvað væri á ferðinni. Ef það hefði verið gert væru það auðvitað miklu frekar brot á þingsköpum heldur en neita þessari umræðu.

Það er opinbert að í þessari ályktun danska þingsins er talað um að setja á stofn embættismannanefnd. Það kann vel að vera að það sé eðlilegt að setja einhverja embættismannanefnd. En ég er nú dálítið hræddur samt við það, við fyrstu sýn, að færa málið af hinum pólitíska vettvangi til embættismanna. Ég held að Alþingi Íslendinga hafi afrekað allnokkuð í fyrra þegar það náði einróma samþykkt um tillögu sem ekki er ómerkari en aðrar tillögur sem samþykktar hafa verið í nágrannalöndunum og á alþjóðavettvangi um þessi mál. Og ég vil fá að hugsa það aðeins hvort ég vil taka þetta mál algjörlega af pólitískum vettvangi svo og svo langan tíma eða hvort þm. og stjórnmálamenn eiga að axla þá byrði og ræða málin áfram á þeim vettvöngum þar sem við höfum gert það og fylgjast auðvitað með því sem er að gerast um kjarnorkuvopnalaus svæði.

Umræðunni er ekki lokið, athugunum er ekki lokið.

Hvort ein embættismannanefnd kemur við hlið annarrar sem starfar - það má vel vera að það sé rétt. Ég ætla ekki að meta það nú en ég vildi að þessar upplýsingar kæmust á framfæri.