08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3531 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

Um þingsköp

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég tel það mjög mikilvægt vegna þeirra málsástæðna sem hafa komið hér fram með og á móti þessari þingskapaumræðu að það komi afdráttarlaust fram hjá hæstv. utanrrh. að sá fundur sem hann er nú að fara á sé ekki ákvarðanatökufundur. Það er í fyrsta lagi.

Í öðru lagi tel ég það líka mjög mikilvægt að það komi fram hjá honum að hann muni standa fast við þá tillögu sem var samþykkt á Alþingi um afvopnunarmál á s.l. vori, að hann muni ekki taka afstöðu gegn því að skipuð verði embættismannanefnd né heldur með því á þessu stigi. Ég tel mjög mikilvægt að það komi fram að hann muni ekki lýsa yfir andstöðu við það að slík embættismannanefnd verði skipuð.