08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3534 í B-deild Alþingistíðinda. (3186)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst til að leiðrétta ákveðinn misskilning sem mér fannst koma fram í máli hv. 2. þm. Norðurl. v. varðandi þessa norrænu embættismannanefnd á vegum utanrrn. Ég held að engum manni detti í hug að taka þetta úr höndum þjóðþinganna, en hins vegar er eðlilegt að þessi mál verði rædd og könnuð á báðum stöðum þannig að það sé í einhverjum takti.

Ég vil benda á að hæstv. forseti hefur lýst því yfir að hann vilji taka til endurskoðunar reglur um þingskapaumræður, það er mikil yfirlýsing, og hann hyggist ræða það mál við formenn þingflokkanna. Ég held að það sé mál sem þurfi vandlegrar skoðunar við og þar þurfi menn að leita samkomulags og lausna í stað þess að menn reyni að bera þar hvern annan atkvæðum.

Það er rétt, sem hæstv. forseti segir, að þau mál má auðvitað ræða og er eðlilegt að ræða, eins og utandagskrárumræðurnar og þingsköpin í heild. M.a. tel ég að það eigi að ræða hlut stjórnarandstöðunnar að stjórn þingsins. Þannig háttar til að stjórnarandstaðan tilnefnir í hóp forseta varaforseta í báðum deildum og sameinuðu þingi og ég hygg að ákvarðanir um hin veigamestu mál í þinghaldinu séu iðulega teknar án þess að um sé að ræða samráð við þessa varaforseta. Þess vegna hlýtur stjórnarandstaðan á hverjum tíma, ég vil alla vega segja það fyrir mig, að velta því fyrir sér hve langt eigi að ganga í þessu efni þegar um lítið eða takmarkað samráð er að ræða í hinum veigamestu úrslitamálum og að varaforsetar hafa lítið hlutverk annað en að hlaupa í stólinn við og við, hinn virðulega forsetastól, til að leysa forseta af þegar hann þarf að gegna mikilvægum erindum.

Öll þessi mál hljóta þingflokkarnir að skoða mjög vandlega, eins og hæstv. forseti hefur hér bent á varðandi þingskapaumræðuna sérstaklega.