08.04.1986
Sameinað þing: 70. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3536 í B-deild Alþingistíðinda. (3191)

322. mál, Alþjóðahugverkastofnunin

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með þáltill. þessari fer ríkisstj. þess á leit að Alþingi heimili fullgildingu samnings frá 14. júlí 1967 um stofnun Alþjóðahugverkastofnunar og þar með aðild Íslands að þeirri stofnun.

Alþjóðahugverkastofnunin er ein þeirra örfáu sérstofnana Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er ekki aðili að. Hún hóf starfsemi sína árið 1970 á grundvelli stofnsamnings frá 1967. Aðalverkefni hennar er að annast framkvæmd Bernarsáttmálans til verndunar á bókmenntum og listaverkum og Parísarsamnings um vernd eignaréttinda á sviði iðnaðar.

Með aðild að þessari stofnun verður hægt að taka virkari þátt í samstarfi um verndun höfundaréttar og eignarréttinda á sviði iðnaðar.

Embættismenn stofnunarinnar hafa lagt mikla áherslu á aðild Íslands, en aðildin hefur engan aukakostnað í för með sér þar sem starfsemin er fjármögnuð að verulegu leyti með framlögum vegna Bernarsáttmálans og Parísarsamningsins.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að till. verði vísað að lokinni þessari umræðu til síðari umræðu og hv. utanrmn.

Umr. (atkvgr.) frestað.